Hugsanlega kveikt í húsinu

Slökkviliðið var kallað á vettvang.
Slökkviliðið var kallað á vettvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öryggisvörður á vegum St. Jósefsspítala í Hafnarfirði vaktaði viðbyggingu spítalans í nótt eftir að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lauk þar störfum  í gærkvöldi í kjölfar eldsvoða.

Eldur kviknaði í þaki viðbyggingar spítalans, sem er fyrir aftan aðalbygginguna. Þrír dælubílar voru sendir á vettvang og gekk vel að ná tökum á eldinum.

Varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu gat í samtali við mbl.is ekkert staðfest varðandi upptök eldsins en RÚV segir fullvíst að kveikt hafi verið í húsinu, samkvæmt heimildum, en til stóð að rífa það núna í morgun. Ekkert rafmagn var á húsinu. 

Að sögn varðstjóra urðu engar skemmdir á aðalbyggingunni, en steyptur veggur er á milli bygginganna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert