Sorg yfir bænum

Íbúar Blönduóss streymdu í kirkju bæjarins í veðurblíðunni í gærkvöldi. …
Íbúar Blönduóss streymdu í kirkju bæjarins í veðurblíðunni í gærkvöldi. Fáninn við kirkjuna var einn þeirra fjölmörgu sem dregnir höfðu verið í hálfa stöng eftir að tíðindi morgunsins bárust. mbl.is/Hákon

Sorg hvílir yfir Blönduósi eftir þá voveiflegu atburði sem áttu sér stað á sunnudagsmorgun. Málið hefur fengið mjög á íbúana og ljóst að þeir eru harmi slegnir.

Afar hljóðlátt hefur verið í bænum og margir bæjarbúar hafa sjáanlega verið í áfalli.

Lögregla og sveitarstjórnin í Húnabyggð stóðu fyrir upplýsingafundi fyrir íbúa Blönduóss í félagsheimili bæjarins í gærkvöldi, en íbúarnir telja um eitt þúsund manns. Fjöldi þeirra mætti á fundinn.

Sjón eins og þessi var ekki óalgeng þegar gengið var …
Sjón eins og þessi var ekki óalgeng þegar gengið var um Blönduós í gær. mbl.is/Hákon

Að honum loknum var bæjarbúum boðinn sálrænn stuðningur í Blönduóskirkju. Streymdi fólk í kirkjuna í veðurblíðunni sem annars einkenndi daginn, og voru margir hverjir með tárin í augunum.

Til vitnis um harminn sem slegið hefur íbúa bæjarins klökknaði Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar er hann flutti yfirlýsingu stjórnarinnar fyrir þá fjölmiðlamenn sem viðstaddir voru. Atburður á borð við þennan ristir djúpt í samfélaginu.

mbl.is/Hákon

Annað einkenndi þennan óvenjulega sunnudag á Blönduósi og það var sá fjöldi fána sem dreginn hafði verið í hálfa stöng. Nær hvert sem litið var mátti sjá þetta sígilda tákn um samhygð náungans.

mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert