Vaxandi þungi er kominn í umræðuna um sveigjanleg starfslok fólks sem náð hefur eftirlaunaaldri. Nú síðast í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra birti áform fyrr í sumar um að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins úr 70 í 75 ár.
Stéttarfélög hafa fagnað áformum um að skoða hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna hjá ríkinu en benda á ýmis ljón í veginum. Þau standa einnig fast á því að tryggja verði að réttindi og ráðningarkjör starfsmanna, sem kjósa að vinna lengur en til sjötugs, verði ekki skert á neinn hátt.
BSRB bendir til að mynda á, í umsögn við áform ráðherrans, að lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða gera eingöngu ráð fyrir því að launafólk og atvinnurekendur þeirra greiði iðgjöld í lífeyrissjóði frá 16 til 70 ára aldurs. Ávinnslutöflur vegna lífeyrisgreiðslna nái ekki lengra en til 70 ára aldurs „og ef iðgjöld berast sjóðunum vegna sjóðsfélaga sem er eldri en 70 ára eru þau einfaldlega endursend til launagreiðanda“.
BHM stingur upp á að greitt verði sérstakt eftirlaunaálag ofan á launin ef hvetja eigi fólk til að halda áfram að vinna í þágu samfélagsins eftir að eftirlaunaaldri er náð.
Markmiðið með hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsmanna hjá ríkinu er að vinna á mönnunarvandanum í heilbrigðisþjónustunni. Þó Læknafélag Íslands fagni því að hækkun hámarksaldursins sé til skoðunar bendir félagið á fjölmarga annmarka á þessum áformum, eins og þau hafa verið kynnt. Læknar séu líklega fjölmennastir í þeim hópi heilbrigðisstarfsmanna hjá ríkinu sem starfað hafa áfram eftir sjötugt.
„LÍ sér í sínum gögnum að tæplega 100 félagsmenn yfir 70 ára eru enn í starfi. Af þeim virðast í kringum 25 vera í launavinnu hjá heilbrigðisstofnunum. Þeir sem eftir eru, vinna þá líklega á eigin starfsstofu,“ segir í umsögn Læknafélagsins.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.