Loka þarf umferð í fáeinar vikur um Háaleitisbraut

Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega …
Öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verður bætt verulega með aðskildum göngu- og hjólastígum og endurnýjaðri ljósastýringu. Biðstöðvar strætó verða færðar til og gangbraut yfir götuna endurgerð vegna þrengingar Háaleitisbrautar ofan við Bústaðaveg. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Til stendur að endurgera gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar á næstunni og verða aðliggjandi götur og gangstéttir aðlagaðar í leiðinni. Þá verða umferðarljós og gatnalýsing endurnýjuð ásamt umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum.

Verktakinn er Stjörnugarðar ehf og má búast við að framkvæmdin sjálf hefjist í september.

Fram kemur í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar, að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um gatnamótin verði bætt verulega með aðskildum göngu- og hjólastígum og endurnýjaðri ljósastýringu. Biðstöðvar strætó verða færðar til og gangbraut yfir götuna endurgerð vegna þrengingar Háaleitisbrautar ofan við Bústaðaveg.

Framkvæmdin er á vegum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í samvinnu við Veitur. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í september og ljúki í desember. Loka þarf umferð í fáeinar vikur um Háaleitisbraut neðan Bústaðavegar meðan hitaveitulagnir eru endurnýjaðar. Nákvæm tímasetning mun liggja fljótlega fyrir. Hjáleiðir verða um Áland og Eyrarland og/eða Fossvogsveg á meðan. Að öðru leyti verður opið fyrir umferð um svæðið.

Aðkoma neyðarbíla að LSH Fossvogi verður greið allan framkvæmdatímann, að því er borgin greinir frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert