Sjaldnast einbeittur brotavilji

Eiríkur Rögnvaldsson er ólatur við að skrifa fyrirtækjum og benda …
Eiríkur Rögnvaldsson er ólatur við að skrifa fyrirtækjum og benda á tungumálanotkun sem í sumum tilfellum gengur í berhögg við íslensk lög. mbl.is/Ófeigur

„Já, ég skrifaði þeim í gær eftir að ég sá þetta á Facebook hjá konu sem ég þekki,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, í samtali við mbl.is um auglýsingu fyrir haframjólkina Oatly sem Innnes flytur inn frá Svíþjóð en athygli vakti að auglýsingin blasti við á ensku hvort tveggja á strætóskýlum og á lýðnetinu.

Sendi Eiríkur erindi til Innness og minnti þar á lagabókstafinn.

„Ég benti á að samkvæmt lögum [nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu] eiga auglýsingar, sem ætlað er að höfða til Íslendinga, að vera á íslensku, það er ótvírætt,“ segir Eiríkur sem kveðst hafa hvatt til þess að málinu yrði kippt í liðinn.

Auglýsing Oatly birtist upphaflega á ensku og hvein þá í …
Auglýsing Oatly birtist upphaflega á ensku og hvein þá í mörgum á samfélagsmiðlum. Skjáskot

Eðlilegt fyrir lundabúðir

Hann segir Björk Eiðsdóttur, blaðamann á Fréttablaðinu, hafa lagt fram tillögu um þýðingu. „Og ég sé að fyrirtækið hefur tekið þá þýðingu upp á vefnum og eins fékk ég senda mynd af þessu á einhverju auglýsingaskilti en ég veit ekki hvort þeir eru búnir að skipta um þetta á strætóskýlunum enn þá,“ segir prófessorinn.

Sýnist honum mikið um markaðssetningu á ensku sem beint er að íslenskum neytendum?

„Já, það er mikið um það en nú er það svo að maður er að verða meira og minna ónæmur fyrir þessu, maður sér þetta svo oft að maður tekur ekki eftir því alltaf. Það er heimilt að hafa auglýsingar á ensku skuli þær helst beinast að útlendingum og það er eðlilegt fyrir lundabúðir og veitingastaði í miðbænum. Þar er ekkert óeðlilegt að auglýst sé á ensku,“ heldur hann áfram.

Auglýsingin í endurbættri útgáfu.
Auglýsingin í endurbættri útgáfu.

Ábyrgð málnotandans

Nefnir Eiríkur ábyrgð fjölmiðla á markaðsefni sem þar birtist og varpar fram dæmi. „Mér var nú bent á það að bæði í Fréttablaðinu í dag og á Vísi og Hringbraut eru auglýsingar á ensku frá fyrirtækinu Boozt og ég skrifaði bæði Fréttablaðinu og Vísi og benti á að það væri nú svolítið kaldhæðnislegt að þar væri skrifuð frétt um að auglýsingunni frá Innnes hefði verið breytt samtímis því að þeir birti auglýsingar á ensku,“ segir Eiríkur.

Hvað sem ábyrgð fjölmiðla líður nefnir Eiríkur þó að ábyrgðin hvíli ekki síst á hinum almenna málnotanda þegar að því kemur að taka eftir hlutum sem betur mega fara og gera þá athugasemdir.

En sjálfur hefur hann verið iðinn við kolann að skrifa fyrirtækjum og benda þeim á málfarsleg atriði er ekki svo?

„Ég hef reynt það og það skilar árangri. Í fæstum tilvikum er þarna að baki það sem kallað er einbeittur brotavilji heldur mun frekar hugsunarleysi,“ segir Eiríkur. Hann segir enskuna orðna alls staðar í kringum okkur og auðvelt sé því að hætta að taka eftir henni.

„Þess vegna taka menn því yfirleitt vel þegar bent er á þetta, það er bara mikilvægt að halda þessu vakandi,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, staddur norður í Skagafirði, í vöggu íslenskrar tungu, þegar þetta samtal á sér stað.

Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, bendir á að þrátt fyrir …
Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, bendir á að þrátt fyrir allt séu 15 prósent þjóðarinnar ekki fædd á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Vonar að allir uni vel við

„Staðreynd málsins er sú að Oatly sér alfarið um sín markaðsmál hvar sem er í heiminum,“ segir Magnús Óli Ólafsson, forstjóri Innness, í samtali við mbl.is, „þau vinna alveg sjálfstætt og eru með sínar áherslur, stýra sínum málum alveg og það er þeirra ákvörðun að fara þessa leið, að hafa skilaboð á ensku, hvar sem þau vinna,“ útskýrir hann.

Hjá Oatly í Svíþjóð hafi hins vegar verið tekin sú ákvörðun að breyta auglýsingunum á Íslandi og hafa þær á íslensku. „Þannig að það er kannski ekki okkar að vera að tjá okkur í þessu máli, við vitum svo sem ekki alveg hver þróunin var í þessu máli, en þetta er niðurstaðan og við vonum bara að allir uni vel við,“ segir forstjórinn.

Segist Magnús sjálfur hafa verið á ferð um Svíþjóð og þar hafi hann einmitt veitt sömu skiltum athygli sem voru á ensku. „Ég var svo sem ekkert sérstaklega að hugsa út í það hvers vegna þau væru ekki á sænsku, heimurinn er að breytast, nú eru 15 prósent af þjóðinni okkar ekki fædd á Íslandi, það eru 60.000 manns, og það er kannski eitthvað sem við þurfum að hafa í huga í framtíðinni þótt manni þyki auðvitað alltaf vænt um okkar ástkæra ylhýra mál,“ segir hann enn fremur.

Yfirlýsing frá Svíum

Magnús er hins vegar ánægður með íslensku þýðinguna og kveður hana koma vel út. Oatly hafi sent frá sér yfirlýsingu um aðlögun tungumáls herferðarinnar á einstökum málsvæðum og má lesa hana hér fyrir neðan.

Hann kveðst ekki vita fyrir víst hvort byrjað sé að skipta út auglýsingunum á strætóskýlunum. „Mér skilst þó að eitthvað sé byrjað á því en þori ekki að fullyrða neitt, ég er ekki í bænum núna,“ segir Magnús Óli, forstjóri Innness, að lokum.

Yfirlýsing Oatly í Svíþjóð:

Við notum slagorðið okkar ”It’s like milk but made for humans“ í upprunalegri útgáfu um allan heim. Slagorðið hefur fylgt okkur frá upphafi, einfaldlega vegna þess að það er frábær leið til að lýsa vörunni okkar og við teljum það vera löglegt að nota það á Íslandi líka.

En við heyrum í þér. Og við viljum ekki að umræðan snúist um tungumál, heldur frekar um það sem við borðum og hvernig það hefur áhrif á plánetuna okkar og alla sem búa á henni.

Þannig að við erum að breyta herferðinni og skipta henni út fyrir nýja með íslenska slagorðinu: ”Eins og mjólk en gerð fyrir fólk.”.

Við erum (augljóslega) ekki fullkomin, en við höfum góðan ásetning og reynum að læra af mistökum okkar.

Love… afsakið, ástarkveðja /Oatly.

mbl.is