Þurfa að rífa allt og tapa 3 milljónum

Hjónin Unnar Kristinsson og Borghildur Gunnlaugsdóttir segjast sár og reið …
Hjónin Unnar Kristinsson og Borghildur Gunnlaugsdóttir segjast sár og reið yfir því að þurfa yfirgefa Laugarvatn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin Unnar Kristinsson og Borghildur Gunnlaugsdóttir eru meðal þeirra sem þurfa að segja skilið við sumarafdrep sitt í hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni eftir að ákveðið var endanlega að leggja byggðina niður á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í lok júní.

Eins og mbl.is greindi frá fengu allir eigendur hjólhýsa á svæðinu bréf nýlega frá sveitarstjórn Bláskógabyggðar þar sem kom fram að til stæði að loka fyrir rafmagn og vatn á svæðinu hinn 1. september. Var fólk því beðið um að hafa hraðar hendur og fjarlægja hýsin sín sem fyrst.

Borghildur vísar til bréfsins sem hótunarbréfs í samtali við mbl.is.

Hjónin segja að þau hafi keypt hýsið í júní 2020 en hafi síðan fengið póst tveimur mánuðum síðar þar sem kom fram að búið væri að taka ákvörðun um að leggja niður hjólhýsabyggð á Laugarvatni vegna ófullnægjandi brunavarna. Þegar pósturinn barst voru þau nýbúin að koma sér fyrir.

Þurfum að kubba þetta niður í rusl

Þau segja að þessi þriggja milljóna fjárfesting þeirra sé því orðin að engu eftir tvö ár þar sem þau náðu lítið að njóta verunnar á Laugarvatni vegna yfirvofandi lokunar á svæðinu.

Unnar bendir á að þau hafi verið heppin að fá afslátt af hýsinu því að undir venjulegum kringumstæðum hefði það kostað töluvert meira. 

„Við keyptum þetta ódýrt af bróður hennar sem var nýlega búinn að veikjast en hann var nýbúinn að setja þetta upp,“ segir Unnar sem bendir á að hýsið hafi ekki fengið að njóta sín lengi.

Þau taka fram að ekki komi annað til greina en að rífa hýsið niður þar sem erfitt er að færa það og ekki leyfilegt að koma því fyrir annars staðar. 

„Eins og með svona hús, þú mátt hvergi vera með þetta. Við þurfum bara að kubba þetta niður í rusl,“ segir Borghildur sem bendir á að ekki sé hægt að selja húsið eins og það stendur enda þurfi að tæma lóðina. 

Hýsið kostaði þrjár milljónir og voru hjónin nýbúin að koma …
Hýsið kostaði þrjár milljónir og voru hjónin nýbúin að koma sér fyrir þegar þeim var tilkynnt að þau þyrftu að yfirgefa svæðið og fjarlægja hýsið innan tveggja ára. Eggert Jóhannesson

Segjast reið og grunar að málið snúist um peninga

Að sögn Unnars má hvergi setja svona hús niður og telur hann það skrítið að það megi flytja það inn til landsins en á hinn bóginn megi það hvergi vera. Þau ítreka þá að dýrt sé að flytja hýsið enda þurfi til þess sérstakan búnað og lögreglufylgd. 

„Við erum bara komin að þeirri niðurstöðu að við þurfum að fá bíl með krana og taka það og henda því inn í gám.“

Að mati Borghildar er það verst að enginn geti notað húsið eða þann efnivið sem var nýttur í það og segir hún það synd að horfa upp á svona sóun.

„Við erum reið því við fáum ekkert að vita hvað á að gera við þetta. Eitthvað á þó að gera við þetta svæði, hvað það verður, verður spennandi að sjá,“ segir hún og bætir við að það hljóti þá að vera eitthvað sem skilar meiru í kassann fyrir sveitarfélagið en hjólhýsabyggð gerir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert