Harma handtöku Hrafns

Systkini segjast hafa haft áhyggjur af Hrafni.
Systkini segjast hafa haft áhyggjur af Hrafni. Samsett mynd

Illugi Jökulsson og Elísabet Kristín Jökulsdóttir, systkini Hrafns Jökulssonar, harma handtöku hans á Brú í Hrútafirði árið 2020. Segja þau ástvini hans hafa óttast um heilsu hans og því rætt við lögregluna um að litið yrði til hans. Þau hafi þó ekki búist við því að víkingasveit yrði send til hans.

Greint var frá því í gær að Hrafn hefði stefnt íslenska ríkinu vegna handtökunnar. Í stefn­unni er meðal ann­ars greint frá því að tveir sér­sveit­ar­menn hafi „þuklað hann [Hrafn] með ónær­gætn­um og hrotta­leg­um hætti... Hafi þetta verið hon­um sárs­auka­fullt og lít­ilsvirðandi.“

Ekki í samræmi við beiðni ástvina

„Það var frá fyrstu stundu hörmulegt að heyra af því sem gerðist á Brú fyrir tæpum tveim árum. Ástvinir Hrafns höfðu áhyggjur af honum, með réttu eða röngu, og báðu þess vegna um að litið yrði til hans. Þannig var það, því miður,“ skrifar Illugi á Facebook-síðu sína og bætir við:

„Enginn lét sér til hugar koma að víkingasveit yrði kölluð út. Það sem þar gerðist var augljóslega hvorki í samræmi við beiðni ástvina hans né almennilega lögregluhætti, og allra síst þann mann sem mætti lögreglumönnunum á Brú og var bersýnilega í alla staði til friðs.“

Harmar málið alla daga

Elísabet játar að hafa átt ákveðinn þátt í handtöku Hrafns. Segir hún það mistök sem hún harmi alla daga.

„Það voru mistök og ég harma það alla daga, en á móti kemur að ég ætlaðist auðvitað aldrei til þess að það kæmi heil víkingasveit að athuga með hann,“ skrifar Elísabet á Facebook-síðu sína.

„Þegar ég hringdi á lögregluna bjóst ég við að það kæmu tveir alúðlegir lögregluþjónar frá Blönduósi með lækni sem vissi sínu viti,“ skrifar Elísabet enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert