„Þetta er siðlaust“

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir það siðlausa kröfu að segja verka- og láglaunafólki að passa sig í viðleitni til að stemma stigu við aukinni verðbólgu.

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nefndi hún dæmi um fólk sem býr á leigumarkaði þar sem leigan hafi hækkað um 50 þúsund krónur.

„Þetta er siðlaust og ég gæti eflaust notað harðari orð um það," sagði Sólveig Anna.

Vakti hún jafnframt athygli á því að ekkert leiguþak hafi verið sett á þrátt fyrir loforð þess efnis.

Spurð út í gagnrýni í hennar garð um að hún líti niður á menntafólk vísaði hún því á bug og sagði menntun skipta mjög miklu máli. Íslendingar ættu aftur á móti að sameinast um að hér skuli ekki vera stór hópur fólks sem striti alla sína ævi, meðal annars við að framleiða verðmæti sem skapa hagvöxt og að sinna umönnunarstörfum, án þess að eignast nokkurn skapaðan hlut. Missir það jafnvel heilsuna vegna stritsins.

Ekki sé eðlilegt að tala um gott velferðarsamfélag á landinu án þess að þetta sé látið átölulaust.

Aðspurð sagðist hún sömuleiðis ekki ætla að bjóða sig fram til embættis forseta ASÍ. 

mbl.is