Fundað um framtíð leikskólans Bakka

Starfsemi leikskólans Bakka að Bakkastöðum verður lögð niður að árslokum …
Starfsemi leikskólans Bakka að Bakkastöðum verður lögð niður að árslokum en áform um starfslok leikskólans voru kynnt á fundi sem var haldinn í dag klukkan 16. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg kynnti í dag áform um framtíðarnýtingu húsnæðisins undir leikskólann Bakka. Lagt var til að flytja börn með leikskólapláss þar yfir í aðra starfsstöð leikskólans í Hamravík. Áformin féllu í grýttan jarðveg hjá foreldrum og er málið til skoðunar að sögn Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.


Er mbl.is leitaði viðbragða frá Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og formanns skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, kvaðst hún ekki vita um framangreind áform en Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir málið koma sér spánskt fyrir sjónir.

Allt á einum stað

Helgi Grímsson segir í samtali við mbl.is að í dag hafi verið kynnt fyrir foreldrum áform um að flytja börn á Bakka yfir í Hamra þar sem fá börn væru í Bakka.

„Þannig værum við með öll börnin og alla starfsmennina á einum stað. Við myndum svo nýta húsnæðið fyrir börn sem eru að bíða eftir leikskólaplássi. Þá erum við að horfa til þeirra barna sem bíða eftir að byrja í leikskólanum sem verður í Vogabyggðinni.“

Að hans sögn höfðu foreldrar uppi mótbárur við þessum áformum.

Þannig að við settum strax í skoðun að breyta tilhöguninni þannig að þeir sem myndu vilja vera áfram í því húsnæði gætu gert það ef þeir svo kysu en börnin í Vogabyggð kæmu inn,“ segir hann og bætir við að unnið verði að málinu með foreldrum.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Rætt um að leggja niður starfsemina

Sólborg Anna Lárusdóttir, móðir barns með pláss á Bakka, segir í samtali við mbl.is að framtíð Bakka hafi verið óviss um árabil. Hún segir frá því að sér hafi borist boð á umræddan fund á föstudaginn þar sem heiti boðsins var „Fundur um framtíð Bakka“. Hún segir að á fundinum hafi verið rætt um að leggja niður starfsemina á Bakka.

Aðspurður segir Helgi að ekki standi til að loka húsnæðinu á Bakka. Hins vegar, ef tillagan hefði runnið í gegn, þá hefði verið tekið til skoðunar hvernig hægt væri að nýta húsnæðið sem best.

„Þá hefðum við skoðað það nánar hvernig hægt væri að nýta húsnæðið áfram. Þar eru ýmsir valkostir. Það eru tiltölulega fá börn í leikskóla á þessu svæði og um langan veg að fara fyrir marga þeirra sem vantar leikskólapláss.

En það eru ýmsir valkostir, t.d. að halda ætti starfseminni áfram á vegum okkar. Eins banka alltaf einhverjir á dyrnar sem vilja hefja rekstur á sjálfstæðum leikskóla. Þannig að þetta er í raun og veru hluti af því sem við förum yfir; hvernig nýtum við húsnæðið okkar sem best.“

Kom spánskt fyrir sjónir

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir lokun Bakka koma sér spánskt fyrir sjónir ef af yrði.

„Það eru fleiri hundruð börn á biðlista, það er því undarlegt að meirihlutinn ætli að loka leikskóla þar sem það eru laus pláss. Ég hélt að að það stæði til að fjölga leikskólaplássum en ekki fækka þeim,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Að sögn Mörtu er lokun leikskólans ekki í samræmi við stefnu meirihlutans um sjálfbærni hverfa.

„Þetta eru mikilvægar þjónustustofnanir í hverju hverfi, leikskóli og grunnskóli. Þetta fer auk þess á skjön við það sem var boðað í borgarráði í þar síðustu viku þar sem því var lofað að allt yrði gert til að leysa þennan leikskólavanda. En lokun Bakka er ekki til þess fallin, það er alveg klárt.“

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert