Sneri vagninum við til að koma átta ára dreng heim

Strætóinn var kominn að Egilshöll þegar bílstjóri vagnsins sneri honum …
Strætóinn var kominn að Egilshöll þegar bílstjóri vagnsins sneri honum við. mbl.is/Sigurður Bogi

Yrja Dögg Kristjánsdóttir, móðir átta ára drengs, kveðst ótrúlega þakklát eftir að strætóbílstjóri fór af leið í Grafarvogi við Egilshöll í gær, í síðustu ferð dagsins, til að skutla syni hennar heim í Mosfellsbæ. Hann hafði óvart tekið vitlausan vagn eftir að hafa verið úti að leika með vinum sínum.

Yrja Dögg segir það mikla mildi að kvöldið hafi ekki endað verr en hún var orðin afar áhyggjufull eftir að barnið hafði ekki skilað sér heim um klukkan níu í gærkvöldi símalaus. Hún upplifði því mikinn létti þegar hún sá strákinn koma arkandi frá strætóstoppistöðinni við heimili þeirra um kvöldið.

„Hann var voða rólegur yfir þessu. Hann kannski áttaði sig ekki almennilega á hversu alvarlegt þetta var fyrr en hann hitti mömmu sína þegar hann kom heim,“ segir Yrja Dögg í samtali við mbl.is.

Ekki óþekkt að strætó skutli farþegum

Yrja Dögg hefur nú sett sig í samband við Strætó og beðið um að koma innilegum þökkum til bílstjórans sem ók vagninum. Þá hefur hún einnig verið í samskiptum við stúlku sem var í Strætó og aðstoðaði son hennar.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við mbl.is að það gerist öðru hverju að bílstjórar fyrirtækisins skutli farþegum áleiðis heim eða upp að dyrum í síðustu ferð dagsins. 

Ferðin átti ekki að taka nema um mínútu

Að sögn Yrju Daggar hafði sonur hennar ætlað til vinar síns eftir kvöldmat í gær en sá var ekki heima. Sonurinn fór því til annars vinar en gleymdi að láta vita af breyttum fyrirætlunum. Þeir félagarnir fóru svo saman á hoppubelg þar sem þeir ærsluðust um stund.

Þegar kom að því að halda heim var drengurinn orðinn þreyttur þannig hann stökk upp í Strætó og átti ferðin ekki að taka nema um mínútu. Hún endaði þó á að vera nokkuð lengri þar sem hann tók vitlausan vagn og áður en hann vissi af var hann kominn upp í Egilshöll.

Fékk bílstjórann til að snúa við

Ung stúlka sem var farþegi í vagninum hafði afskipti af drengnum því henni fannst skrýtið að strákur á þessum aldri væri einn í strætó svona seint. Hann sagði henni að hann hefði ætlað að fara í hina áttina og taka vagninn að Helgafellsskóla. Hún bauð honum að hringja en þar sem hann vissi ekki númerin hjá foreldrum sínum og mundi ekki eftirnöfn þeirra var ekki hægt að finna þau á já.is.

Þá brá stúlkan á það ráð að ræða við bílstjórann og spurði hvort hann gæti keyrt drenginn til baka. Vagnstjórinn var í sinni síðustu ferð þetta kvöldið en tók vagninn af leið og ók drengnum til baka og á þá stoppistöð sem hann ætlaði upphaflega á.

Ekki hvaða bílstjóri sem er hefði snúið við

Yrja Dögg segir yndislegt að stúlkan hafi komið syni hennar til bjargar í vagninum. Þá kveðst hún afar þakklát bílstjóranum. 

„Það er ekki hvaða bílstjóri sem er sem hefði snúið við hjá Egilshöll og skutlað barninu heim. Þetta er bara magnað. Yndisleg saga,“ segir Yrja Dögg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert