Ásmundur svarar gagnrýni Sólborgar

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, telur að setja þurfi aukinn kraft í vinnu við að koma á fót viðbragðsáætlunum í framhaldsskólum vegna kynferðisofbeldis. Málin séu bæði flókin og fjölbreytt.

„Við viljum ekki bara vera með áætlanir um það hvernig brugðist er við eftir að svona mál koma upp, heldur getum við brugðist við fyrr og reynt að draga úr líkum á því að þau komi upp?

Mál sem hafa verið að koma upp varða ekki öll kynferðisofbeldi, það eru líka mál sem varða önnur ofbeldisbrot og þess vegna held ég að það þurfi að nálgast þetta svolítið á víðum grunni,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.

Eitt af áhersluatriðum vetrarins

Hvers vegna liggja ekki skýrar viðbragðsáætlanir fyrir nú þegar?

„Það var lagt til að skólar kæmu upp slíkum viðbragðsáætlunum og við höfum hvatt til þess. Í samtali við skólana hefur komið fram að staða þeirra sé með ólíkum hætti. Við ætlum einfaldlega að setja meiri kraft í þessa vinnu í samvinnu við skólana og þetta verður eitt af áhersluatriðum vetrarins.“

Telur Ásmundur að umræða um mál er varða kynferðisofbeldi hafi opnast á undanförnum árum og skólar þurfi að þróast og bregðast við. Slík mál séu að koma upp í auknum mæli og skólar, og aðrar stofnanir, þurfi að læra að fóta sig í því umhverfi.

„Ég held að samfélagið allt sé að þroskast og þróast og það held ég að sé bara mjög jákvætt,“ bætir hann við.

Hafa fylgt skýrslunni eftir

Spurður út í þá gagnrýni Sólborgar Guðbrandsdóttur að skýrsla hóps sem hún fór fyrir og skilaði ráðuneytinu á síðasta kjörtímabili hafi verið „stungið undir stól“, segir Ásmundur:

„Ég held að það sé nú ekki þannig, vegna þess að ráðuneytið hefur fylgt þessu eftir meðal annars með hvatabréfum til skólana um að setja upp slíkar viðbragðsáætlanir. Við höfum líka verið að skoða að mögulega þarf að ráðast í ákveðnar lagabreytingar til þess að innleiða hluta af þessari skýrslu.“

Ásmundur mun funda með Sólborgu um viðbragðsáætlanir í framhaldsskólum vegna kynferðisofbeldis og áreitis.

„Við hyggjumst kalla til fjölbreyttan hóp aðila til þess að fylgja þessu eftir og setja aukinn kraft í þau. Það þarf ólík sjónarmið þar á borðinu og meðal annars formann þessa starfshóps sem leiddi þessa vinnu, ég hyggst funda með henni. Við hyggjumst líka kalla fleiri aðila til, nemendur, fulltrúa þolenda og gerenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert