Byrjuð að innrita biðlistabörn

Skúli kynnti tillögur borgarráðs í Ráðhúsinu þann 18. ágúst.
Skúli kynnti tillögur borgarráðs í Ráðhúsinu þann 18. ágúst. mbl.is/Hákon

Búið er að innrita fjórtán börn á tvær nýjar deildir á leikskólanum Bakka í Staðarhverfi í Grafarvogi. Reiknað er með að deildirnar, sem opna núna í september, muni geta tekið á móti fleiri en 40 börnum.

Þetta segir Skúli Helgason, borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og formaður stýri­hóps borg­ar­inn­ar í upp­bygg­ingu leik­skóla, í samtali við mbl.is.

Fyrir tveimur vikum kynnti borgarráð sex tillögur að lausnum á leikskólavandanum í borginni. Meðal tillagnanna var opnun þessara tveggja nýju deilda á Bakka.

Starfsfólk Vogabyggðar aðstoðar

Skúli segir Bakka heppilegt úrræði við vandanum þar sem auðvelt hafi verið að manna þessar tvær deildir, en starfsfólkið sem mun starfa á þeim hafði verið ráðið á nýjan leikskóla í Vogabyggð við Elliðaárósa sem átti að opna í október. Nú stendur til að opna hann í desember.

„Húsnæðið er tilbúið og ákveðið hefur verið að börn sem hafa fengið samþykktar umsóknir í leikskólann í Vogabyggð hefji sína vistun í Bakka – þau komast þá inn 2-3 mánuðum fyrr en ef þau hefðu þurft að bíða eftir að leikskólinn í Vogabyggð verði tilbúinn,“ segir Skúli.

Skóflustunga að hinum nýja leikskóla í Vogabyggð var tekin í lok júní þessa árs.

Í gær voru foreldrar barna á Bakka boðaðir á fund um framtíð leikskólans. Lagt var til að færa börnin sem nú þegar eru á leikskólanum á aðra starfsstöð leikskólans í Hamravík í Grafarvogi. Þá yrði húsnæði Bakka nýtt fyr­ir biðlistabörn. Áformin féllu í grýtt­an jarðveg hjá for­eldr­um.

Foreldrar hafa tvisvar mætt með börn sín og mótmælt í …
Foreldrar hafa tvisvar mætt með börn sín og mótmælt í Ráðhúsinu. mbl.is/Hákon

Kemur í ljós í næsta mánuði

Meðal tillagna borgarráðs var einnig að skoða hvort hægt væri að nýta Korpuskóla í Grafarvogi undir leikskólastarf.

Að sögn Skúla þarf að gera breytingar á byggingunni að innan til að hægt sé að bjóða upp á gott leikskólastarf. Segir hann að það verði ljóst í næsta mánuði hvort Korpuskóli verði tekinn í notkun. Áætlað er að skólinn geti tekið á móti 120-150 börnum. 

Hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra var einnig meðal tillagna borgarráðs. Skúli …
Hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra var einnig meðal tillagna borgarráðs. Skúli segir tillöguna í skoðun hjá hjá skóla- frístundasviði borgarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gengur vel að flýta opnunni á Nauthólsvegi

Á kynningarfundi borgarráðs voru jafnframt kynnt áform um að flýta opnun leikskólans á Nauthólsvegi til fyrri hluta september. Upprunalega átti hann að opna í desember 2021 en henni var svo frestað til október 2022.

Að sögn Skúla er nú unnið hörðum höndum að opnunni. Segir hann góðan gang á þeim málum. 

„Verið er að leggja lokahönd á frágang húsnæðis. Úttektir byggingarfulltrúa, heilbrigðiseftirlits og brunaeftirlits fara fram í þessari viku og vinna við frágang útileiksvæðis er á fullu.  Leikskólinn mun opna með tímabundnu leiksvæði en búið er að semja við verktaka um frágang á endanlegu leiksvæði,“ segir Skúli.

Fara í auglýsingaherferð

Eins og hefur oft komið fram er mönnunarvandi leikskólanna stór partur af leikskólavandanum. Skúli segir að borgin muni beita fjölbreyttum aðferðum til að laða til sín starfsfólk.

„Mönnunarmálin verða sannarlega krefjandi en sú vinna er í fullum gangi með fjölbreyttum aðferðum. Auglýsingaherferð, vinnu ráðgjafa sem helga sig ráðningum á leikskólum og ýmiss konar stuðningi skóla og frístundasviðs við leikskólastjóra sem stjórna ráðningum á hverjum leikskóla fyrir sig,“ segir Skúli.

Mörg börn bíða leikskólapláss.
Mörg börn bíða leikskólapláss. mbl.is/​Hari

Tillaga foreldranna góð

Líkt og mbl.is greindi frá í síðustu viku ræddi Skúli við foreldra sem mættu í Ráðhús Reykjavíkur til að halda þrýstingi á borg­ar­yf­ir­völd­um um að leysa leik­skóla­vand­ann.

Í samtali við Skúla spurðu foreldrarnir hvort ekki væri hægt að skipta leik­skóla­skóla­plássi þeirra sem bíða eft­ir plássi á tvö börn. Yrði einu plássi þá út­hlutað á tvö börn. Annað yrði frá átta til tólf og hitt frá tólf til fjög­ur. 

Skúli tekur vel í tillögu þeirra og segir vert að skoða hana.

„Ég á von því að þetta sé eitt af því sem við munum ræða núna í framhaldinu, þá hvort að það geti nýst einhverjum hópum.Við vit­um að þessi leið nýt­ist ekki öll­um en getur verið farsæl leið fyrir aðra í stað þess að bíða lengur eftir plássi allan daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert