Földu 53 lítra af amfetamínvökva í saltdreifara

Embætti héraðssaksóknara.
Embætti héraðssaksóknara. mbl.is/Hjörtur

Héraðssaksóknari hefur ákært fimm menn fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot.

Fram kemur í ákærunni að þrír þeirra hafi í byrjun árs 2020 staðið saman að innflutningi á saltdreifara sem í voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva, hingað til lands með Norrænu frá Hollandi í félagi með tveimur óþekktum erlendum aðilum.

Mennirnir hafi tekið á móti tækinu og fíkniefnunum hérlendis og geymt á Hellu. Í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila hafi þeir fjarlægt amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleitt allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni.

Tveir þeirra hafi sammælst um þátttöku í gegnum samskiptaforritið Encrochat.

Kannabisræktun í útihúsi 

Fjórir mannanna eru jafnframt ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið um nokkurt skeið saman að kannabisræktun í útihúsi á Hellu. Við leit þann 22. maí síðastliðinn lagði lögregla hald á 6.110 grömm af kannabisplöntum, 16.265 grömm af marijúana og 131 af kannabisplöntu.

Einn er ákærður fyrir að hafa 23. maí í bílskúr í Hafnarfirði haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni samtals 224,1 g af amfetamíni, 1.792,65 g kókaíni, 6.731 g af MDMA, 1.835 g af metamfetamíni, 41.750 ml af amfetamínvökva, 20.850 ml af MDMA-vökva og 7.101 stykki af MDMA-töflum sem lögreglan fann og lagði hald á við leit.

Fíkniefni í hesthúsi

Sami maður er ákærður fyrir þrjú fíkniefnalagabrot til viðbótar, þar á meðal eitt stórfellt þar sem ýmis fíkniefni fundust í hesthúsi í Víðidal í Reykjavík 20. maí síðastliðinn.

Annar fimmmenninganna er loks ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 12,13 g af kókaíni sem lögreglan fann á heimili hans að Hverfisgötu í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert