Lilja segist stefna á að auglýsa öll störf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun skoða hvort ráðningar án auglýsinga séu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun skoða hvort ráðningar án auglýsinga séu að aukast. Samsett mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hafnar því að ráðning nýs þjóðminjavarðar án auglýsingar sé ekki í takt við góða stjórnsýsluhætti. Lilja hefur mátt sæta harðri gagnrýni vegna ráðningarinnar, en hún segir hana byggða á faglegum forsendum.

„Viðkomandi aðili er sannarlega hæfur til þess að gegna þessari stöðu. Ef það væri verið að flytja bara einhvern í starf þá myndi ég skilja þessa gagnrýni betur, en það er skýr lagaheimild fyrir þessu og þetta hefur tíðkast innan stjórnsýslunnar,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Harpa Þórsdóttir var nýverið skipuð til að gegna embætti þjóðminjavarðar. Athugasemdir hafa hins vegar verið gerðar við það hvernig staðið var að ráðningunni, þar sem staðan hafi ekki verið auglýst til umsóknar. Gagnrýnin snýr því ekki að Hörpu sem slíkri.

Hlynnt því að auglýsa störf

„Það eru þrjú höfuðsöfn á Íslandi, það er Listasafn Íslands, Þjóðminjasafnið og Náttúruminjasafnið. Harpa Þórsdóttir hefur verið safnstjóri á einu af þessum höfuðsöfnum og við erum að flytja mjög færan stjórnanda úr einu höfuðsafni yfir í það næsta,“ segir Lilja.

Hún segist þó vera hlynnt þeirri meginreglu að auglýsa skuli laus embætti og störf hjá ríkinu.

„Við notum þetta sparlega, en þarna var tekin ákvörðun um að gera þetta svona, vegna þeirrar reynslu og þekkingar sem Harpa Þórsdóttir safnstjóri hefur.“

Spurð hvort hún ætli hér eftir að auglýsa öll störf á kjörtímabilinu, svarar Lilja:

„Já, það er stefnan.“

Skoðar hvort ráðningar án auglýsinga séu að aukast

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ákveðið að taka saman tölfræði um hvort ráðningar án auglýsinga séu að færast í vöxt, í ljósi umræðunnar.

„Ég held að þessi umræða sýni að það sé ástæða til að þess að ræða hvernig við viljum hafa þetta kerfi. Auglýsing tryggir auðvitað jafnræði fólks til að sækja um stöðu, en á sama tíma er flutningsheimildin í raun og veru jákvæð til þess að auka hreyfanleika innan kerfisins sem er líka eitthvað sem við viljum sækjast eftir,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

„Það þarf ekkert að efast um að það er heimild samkvæmt lögum að flytja fólk til í starfi, síðan er það hvers ráðherra að vega og meta hvort það eigi við að nýta þá heimild.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert