Miklu meira framboð íbúða til sölu

Framboðsaukningin einkum komin til vegna eldri íbúða.
Framboðsaukningin einkum komin til vegna eldri íbúða. mbl.is/Sigurður Bogi

Framboð íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um 45 prósent á einum mánuði. Nú eru 1.013 íbúðir til sölu en í lok júlí voru þær aðeins 700. Lægst fór framboðið í 437 íbúðir í byrjun febrúar síðastliðinn.

Þetta er í fyrsta skipti síðan vorið 2021 sem fleiri en 1.000 íbúðir eru til sölu, en í maí árið 2020 voru rúmlega 2.200 íbúðir auglýstar til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Framboðsaukningin virðist einkum vera til komin vegna eldri íbúða en framboð á nýjum íbúðum hefur vaxið hægar. Nú eru 151 ný íbúð til sölu en fjöldi þeirra fór minnst í 57 íbúðir.

Ljósmynd/hms.is

Hægir á sölu vegna minnkandi eftirspurnar

Aukið framboð er því ekki hægt að skýra með auknu framboði nýrra íbúða heldur er líklegasta skýringin sú að hægt hafi á sölu vegna minnkandi eftirspurnar. Um helmingur íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu er á auglýstur á 75 m.kr. eða meira.

Framboð sérbýla á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið hlutfallslega álíka mikið og framboð íbúða í fjölbýli, bæði undanfarinn mánuð og frá því botninum var náð. Hins vegar náði framboð sérbýla ekki botninum fyrr en í apríl á meðan framboð íbúða í fjölbýli náði botninum í byrjun febrúar. 

Í nágrannasveitarfélögum eru 409 íbúðir til sölu en þær voru 323 fyrir mánuði og aðeins rétt rúmlega 200 í byrjun maí. Annars staðar á landsbyggðinni eru 371 íbúð til sölu en þar hefur íbúðum fjölgað hægar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert