Stýrivextir hafi hækkað of mikið og of hratt

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Auðvitað er jákvætt að sjá verðbólguna lækka. Maður bindur miklar vonir við að þessi þróun haldiáfram,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is. 

Hann segir ljóst að verðbólguþrýstingur fari minnkandi með lækkandi eldsneytisverði og kólnandi fasteignamarkaði. „Það er verulega jákvætt að þessi þróun sé byrjuð.“

„Við höfum þó lýst yfir áhyggjum yfir að verið sé að hækka stýrivexti of hratt og of mikið núna að undanförnu – og í raun hafi síðasta hækkun verið tilefnislaus sökum þess að maður hafði tilfinningu fyrir því að þessi þróun væri hafin.“

Kristján Þór segir að þurft hefði að bíða og sjá hver áhrif fyrri stýrivaxtahækkana yrðu áður en ráðist hefði verið í aðra hækkun, líkt og tilkynnt var í síðustu viku. 

Stýrivextir hafa hækkað um 3,5 prósentustig það sem af er ári. Stýrivextir voru hækkaðir um 75 punkta í síðustu viku en í tvö skipti þar áður voru þeir hækkaðir um hundrað punkta. 

Staða skuldsettra áhyggjuefni

Spurður hvort að Kristján kalli eftir lækkun þegar kemur að næstu stýrivaxtaákvörðun segir hann „Maður myndi vilja sjá lækkun á ný til að ýkja ekki sveiflur á markaðinum. Það væri gott að sjá.“

Hann segir stöðu skuldsettra vekja áhyggjur og að stýrivaxtahækkanir komi sérstaklega illa við þá sem hafa skuldsett sig nýlega í dýrtíðinni. „Ég er hræddur um að mörg heimili eigi erfitt með að standa undir því,“ segir hann. 

Auk þess segir Kristján það gefa auga leið að verðbólga hafi áhrif á allt sem við kemur verkalýðsbaráttunni og að hjaðnandi verðbólga geti haft jákvæð áhrif á það umhverfi. 

„En við erum vissulega að horfa á eftir tímabili þar sem ársverðbólgan er um tíu prósent og heimilin hafa þurft að taka það á sig. Það þarf líka að horfa á stöðuna afturvirkt, á það sem hefur verið að hækka. “

Kristján kveðst ekki getað svarað því hvort að hjaðnanadi verðbólga komi til með að hafa áhrif á kröfugerðir „en auðvitað hefur allt umhverfið áhrif“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert