„Ísland var miðpunktur fréttaheimsins“

Ögmundur Jónasson bauð Mikhaíl Gorbatsjov velkominn til Íslands á sínum …
Ögmundur Jónasson bauð Mikhaíl Gorbatsjov velkominn til Íslands á sínum tíma. mbl.is/RAX

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri Grænna, var fréttamaður á Ríkisútvarpinu þegar Mikaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, og Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti hittust á sögufrægum fundi í Höfða í Reykjavík í október 1986. 

„Hér iðaði allt af lífi. Það voru allir fréttamenn, ekki síst íslenskir, heldur fréttamenn almennt með margfaldan skammt af adrenalíni í skrokknum þessa dagana,“ segir Ögmundur í samtali við mbl.is um þann tíma er hann bað Gorbatsjov velkominn til Íslands. Greint var frá því í gær að Gorbatsjov hefði látist 91 árs að aldri. 

Ögmundur sammælist því að um hafi verið að ræða stærsta viðburð á hans ferli sem fréttamaður. „Ísland var miðpunktur fréttaheimsins. Stóru sjónvarpsstöðvarnar bandarísku voru með yfir tíu sjónvarpstökulið hver um sig á Íslandi og voru með beinar útsendingar héðan.“

Prýddu báðir forsíðu Pravda

Ögmundur viðurkennir að hafa ekki átt í nánum kynnum við leiðtogann en þrátt fyrir það prýddu þeir saman forsíðu Pravda, sem var opinber fréttamiðill kommúnískaflokksins í Sovétríkjunum á þeim tíma.

„Við prýddum báðir forsíðuna daginn eftir komu hans til Reykjavíkur. Þá rauf Gorbatsjov samkomuleg sem gert hafði verið fyrir fundinn um að hvorugur leiðtoganna myndi hafa í frammi einhverjar yfirlýsingar, en Gorbatsjov talaði til heimsbyggðarinnar í gegnum míkrafón íslenska sjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli.“

Ögmundur talar þá um mikilvægi fundsins í Reykjavík og nefnir að augu allrar heimsbyggðarinnar hafi verið á honum.

„Það voru miklar vonir bundnar við tilraunir til afvopnunar og ég er ekki í nokkrum vafa um það að Gorbatsjov hafi verið mjög heill í þeim ásetningi að reyna að ná árangri um afvopnun.“

„Eftirminnilegasti stjórnmálamaður sinnar samtíðar“

Ögmundur segir að Gorbatsjov sé án efa einn eftirminnilegasti stjórnmálamaður sinnar samtíðar, en hikar við að segja áhrifamesti þar sem að hann telur að fátt sem Gorbatsjov vildi gekk eftir.

„Þegar hann komst til valda á níunda áratug síðustu aldar gerði hann allt hvað hann gat til að blása lífi í sovétkerfið með opnun og vísi að lýðræðisvakningu, Glasnost og Perestrojku, en allt kom fyrir ekki enda kerfið á fallanda fæti,“ segir Ögmundur.

Hann telur þá vilja Gorbatsjovs til afvopnunar hafi verið ótvíræðan, er við minnumst afvopnunarviðræðna þeirra Reagan og Gorbatsjovs á Íslandi 1986. „Sá fundur er mér ekki síst minnistæður vegna þess að ég var þá fréttamaður Sjónvarpsins og hafði ásamt öðrum umsjón með fréttaumfjöllun um fundinn.

Er mér eftirminnilegt hve fimur pólitískur skylmingamaður Gorbatsjov var. Enda bjó hann nánast við lýðhylli á Vesturlöndum gagnstætt því sem raunin var á heima fyrir þar sem allt var í upplausn og á hverfanda hveli.“

Söguleg arfleifð Gorbatsjovs augljós

Ögmundur segir þá sögulega arfleifð Gorbatsjovs augljósa þar sem hann skyldi eftir ákall um afvopnun og snertir þar á innrás Rússa í Úkraínu sem nú gengur yfir.

„Nýlega, fyrir innrás Rússa í Úkraínu sagði Gorbatsjov og kvað fast að orði að útrýma þyrfti öllum kjarnorkuvopnum, ekki nægði að hefta útbreiðslu þeirra – núverandi handhafar kjarnorkuvopna yrðu allir að láta þau af hendi. Annars væri voðinn vís.

Handan Atlantshafsins heyrðist annar öldungur viðra sömu skoðun. Það var fyrrnefndur Henry Kissinger. Ég held að þeir hafi vitað sínu viti,“ segir Ögmundur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert