„Þú býrð þar sem þú leggur“

Hákon Pálsson ljósmyndari stóðst ekki mátið að mynda þennan sérkennilega …
Hákon Pálsson ljósmyndari stóðst ekki mátið að mynda þennan sérkennilega færleik á Skólavörðuholtinu og fá símanúmer hjá eigandanum svo forvitnast mætti um málið. mbl.is/Hákon

„Það er engin nýlunda að fólk sé forvitið um Saab-inn minn og ferðahýsið,“ segir Þjóðverjinn Thorsten Eckardt í samtali við Morgunblaðið en líkast til hefur fjöldi Íslendinga veitt þeim Ninu Schwitalla, ferðafélaga hans og vinkonu, athygli meðan á ferð þeirra um Ísland stóð síðustu vikur.

Saab-inn vígalegur við skipshlið á Seyðisfirði. Thorsten Eckardt ræddi við …
Saab-inn vígalegur við skipshlið á Seyðisfirði. Thorsten Eckardt ræddi við Morgunblaðið í sólbaði á þilfarinu að lokinni vel heppnaðri Íslandsheimsókn þar sem þau ferðafélagarnir sáu hvort tveggja eldgos og norðurljós. Ljósmynd/Aðsend

Það gerði að minnsta kosti Hákon Pálsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, þegar hann rakst á þýsku ferðalangana á Skólavörðuholtinu á þessum sérkennilega færleik sem nánast mætti líkja við skáldfákinn Pegasus þótt ófleygur sé. Þessari vefútgáfu viðtalsins fylgja einnig myndir sem Eckardt tók á ferðalaginu um Ísland. „Þú býrð þar sem þú leggur,“ sagði hann við Morgunblaðið en Þjóðverjinn hefur farið um alla Evrópu og víðar á sænska fáknum með ferðahýsið.

Við aðra skipshlið en sá dallur er líklega ekki að …
Við aðra skipshlið en sá dallur er líklega ekki að fara eins og langt og Norræna. Ekki úr þessu. Ljósmynd/Aðsend

„Núna sit ég í sólbaði á þilfari Norrænu og horfi yfir opið Atlantshafið einhvers staðar milli Hjaltlandseyja og Noregs,“ segir Eckardt er tal næst af honum. Saga Þjóðverjans og Saab 900-bifreiðar hans, árgerðar 1992, með ferðahýsinu af gerðinni Toppola, sem smíðað var í Svíþjóð árið 1984, er sem töfrum slungin, ekki síst fyrir þá ástríðu og þann áhuga sem gæðir frásögn Eckardts ólgandi lífi.

Sænska stálið fellur eins og flís við rass að íslenskri …
Sænska stálið fellur eins og flís við rass að íslenskri náttúru við aftanskæru. Ljósmynd/Aðsend

„Um 300 Toppola-ferðahýsi voru framleidd, hvert einasta þeirra handsmíðað, yfirbyggingin er úr trefjagleri eins og því sem notað er í báta og mitt er með öllum upprunalegu timburhúsgögnunum sem sérsmíðuð voru í þessi hýsi,“ útskýrir Eckardt af smitandi áhuga. Hann segir hýsin flest hafa verið smíðuð sérstaklega fyrir Saab-bifreiðar í Landskrona í Svíþjóð og bera upprunalegt varahlutanúmer frá Saab-verksmiðjunum, en einnig fyrir tvær Ford-gerðir, Sierra og Scorpio. „Þetta er stærsti og dýrasti Saab-aukahlutur sem framleiddur hefur verið,“ segir sá þýski sposkur.

Hádegisverður innandyra í rysjóttu veðri, Nina Schwitalla og Eckardt láta …
Hádegisverður innandyra í rysjóttu veðri, Nina Schwitalla og Eckardt láta fara vel um sig, skólasystkini fyrir langa löngu, seinna kærustupar en núna ferðafélagar og vinir. Eckardt lætur vel af hýsinu og kveðst auðveldlega geta staðið uppréttur í því, 186 sm á hæð. Ljósmynd/Aðsend
Ekki er örgrannt um að á langferðum þurfi annað slagið …
Ekki er örgrannt um að á langferðum þurfi annað slagið að dytta að þarfasta þjóninum og hér tekur Eckardt að sér hlutverk bifvélavirkjans. Saab-inn er 1992 árgerð, 900 Turbo, 141 hross og Eckardt segir hann einstaklega þýðan í akstri, ferðahýsið breyti þar engu. Ljósmynd/Aðsend

Lesa má viðtalið í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert