Verið sé að þrengja aðkomu að Landspítalanum

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Menn hafa miklar áhyggjur af þessu í þessum geira sem ég var í,“ segir Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður, í samtali við mbl.is um þrengingarnar sem á að fara í núna við Háaleitisbraut og Bústaðaveg.

Greint var frá því í síðustu viku að loka þyrfti fyrir umferð í fáeinar vikur um Háleitisbraut neðan Bústaðavegar á meðan hitaveitulagnir eru endurnýjaðar. Til stend­ur að end­ur­gera gatna­mótin til að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda með aðskildum göngu- og hjólastígum og endurnýjaðri ljósastýringu.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar kemur fram að ætlað er að framkvæmdir hefjist í september og ljúki í desember.

Þá segir einnig að aðkoma neyðarbíla að LSH Fossvogi verði greið allan framkvæmdatímann en hjáleiðir verða um Áland og Eyrarland og/eða Fossvogsveg á meðan. Björn segir hins vegar áhyggjuefni að verið sé að þrengja Háaleitisbrautina í ljósi þess að hún er ein aðalleið sjúkrabíla að bráðadeild Landspítalans.

Borgin þarf að hafa samráð við viðbragðsaðila

Björn tekur sérstaklega fram að verið sé að þrengja aðkomu að Landspítalanum með því að þrengja Háaleitisbrautina með þessum hætti. „Sjúkraflutningamenn eru alltaf að berjast við útkallstíma og mínútur og jafnvel sekúndur geta skipt sköpum,“ segir Björn.

Þá segir Björn að ekkert samráð hafi verið haft við viðbragðsaðila, þar á meðal slökkviliðið sem sér meðal annars um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu, við gerð þessara áætlana.

„Við í Sjálfstæðisflokknum höfum kallað eftir því í skipulags- og samgönguráði að fá að vita hvar þetta var samþykkt en það hefur ekki komið fram enn þá,“ segir Björn enn fremur.

Ein aðalleiðin að spítalanum

Björn segist hlynntur því að bæta aðgengi hjólandi og gangandi en að það sé þess vegna hægt að gera með gerð göngu- og hjólabrú. Bendir hann þá á að borgarstjóri sé formaður stjórnar slökkviliðsins og því undarlegt að hann tryggi ekki að slökkviliðið hafi gott aðgengi.

„Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er með yfir 30 þúsund sjúkraflutninga á ári hverju og stór hluti þeirra eru neyðarflutningar sem fara á þessa bráðamóttöku og þetta er ein aðalleiðin að spítalanum.“

„Ég vil fyrst og fremst að þetta verði skoðað betur og að samráð verði haft við slökkviliðið. Eins og ég sagði áðan þá getur þetta verið spurning um mínútur eða sekúndur,“ segir Björn að endingu.

mbl.is