Vísa ábyrgð á þjónustu við flóttafólk til ríkisvaldsins

Hafnarfjörður hefur ítrekað komið því á framfæri við félags- og …
Hafnarfjörður hefur ítrekað komið því á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að sveitarfélagið geti ekki tekið á móti fleira flóttafólki í bili mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði segja að ekki sé unnt að anna mikilli fjölgun flóttafólks sem að sögn þeirra hefur verið komið í þjónustu hjá sveitarfélaginu án nokkurs samráðs af hálfu ríkisvaldsins. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í dag samhljóða ályktun þar sem ábyrgð á þjónustu við flóttafólk hjá sveitarfélaginu er vísað til ríkisvaldsins.

Í ályktun bæjarstjórnar kemur fram að frá árinu 2015 hefur sveitarfélagið tekið á móti einstaklingum í leit að alþjóðlegri vernd samkvæmt samningi við ríkisvaldið sem sveitarfélagið segist hafa sinnt af alúð og metnaði. Aftur á móti hefur flóttafólki án samnings við bæjarfélagið fjölgað um nokkur hundruð á síðustu vikum að tilstuðlan ríkisvaldsins án nokkurs samráðs við bæjarfélagið. Bæjarfélagið vísar því ábyrgðinni á veitingu þjónustunnar til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.

Bæjarfélagið hefur ítrekað komið því á framfæri við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið að bærinn geti ekki tekið á móti fleira flóttafólki í bili þar sem innviðir sveitarfélagsins séu fyrir allnokkru komnir að þolmörkum, sérstaklega hvað skólaþjónustu og stuðning til barna varðar.

Í téðri ályktun segir að vegna skorts á framangreindu samráði þoli innviðir sveitarfélagsins ekki frekari fjölgun flóttafólks án samnings og óskar bæjarfélagið eftir því að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið taki ábyrgð á því að viðeigandi þjónustu við flóttafólk verði sinnt.

mbl.is