„Erum meðvituð um að þetta setur aukið álag á kerfið“

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum meðvituð um að þetta setur aukið álag á kerfið en æskilegt væri að geta verið með búsetuúrræði dreifð á fleiri sveitarfélög en eins og allir vita þá er húsnæðismarkaðurinn ekki góður,“ segir Gísli Davíð Karlsson, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá Vinnumálastofnun í samtali við mbl.is.

Til umræðu var staðan sem hefur myndast í Hafnarfirði og Reykjanesbæ að undanförnu en bæði sveitarfélög hafa kvartað undan því að innviðirnir ráði ekki við frekari fjölgun flóttafólks.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sagði í Morgunblaðinu á fimmtudag að innviðir í sveitarfélaginu væru sprungnir og að ábyrgðinni hefði verið vísað á fé­lagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Mikil aukning í kjölfar Úkraínustríðs

Útlendingastofnun gerði samning við þrjú sveitarfélög, Reykjavíkurborg, Hafnarfjörð og Reykjanesbæ um að þau veiti 390 manns þjónustu.

Þann 1. júlí síðastliðinn færðist þetta verkefni yfir til Vinnumálastofnunar sem sér nú um þjónustu við flóttafólk, en því hefur fjölgað talsvert frá innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í febrúar á þessu ári.

„Fyrir Úkraínustríðið var Útlendingastofnun með þrjú búsetuúrræði á sínum snærum í Reykjavík, Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Við tökum yfir það 1. júlí en það sem gerist í millitíðinni er að mikill fjöldi fólks fer að streyma inn og þá þarf fjölga fólki í þjónstu, hjá okkur og Útlendingastofnun, og leita að öðru húsnæði til að geta hýst þessa einstaklinga og því miður hefur ekki tekist að finna húsnæði í öðrum sveitarfélögum,“ útskýrir Gísli.

Fólk færist ekki áfram í kerfinu

Gísli segir Hafnarfjörð vera að sinna sínum skyldum gagnvart samningnum, en nú í dag hafi bæst við umsækjendur sem eru búsettir í Hafnarfirði sem eru í þjónustu hjá Vinnumálastofnun, en stofnunin sinnir grunnþjónustu þeirra m.a. greiðslu vikulegrar framfærslu, húsnæði- og heilbrigðisþjónustu.

Hann segist jafnframt meðvitaður um að með auknum fjölda aukist álagið sem hefur verið og er að leggjast á sveitarfélögin, en þrefalt fleiri umsækjendur eru nú í kerfinu hjá Vinnumálastofnun en voru í ársbyrjun. 

Flóttafólk sem kemur frá Úkraínu fær yfirleitt dvalarleyfið sitt á sólarhring og getur verið í allt að átta vikur hjá okkur en svo á annað að taka við, þ.e. sveitarfélögin.

„Staðan sem við erum hins vegar komin í núna er að við erum með töluvert stóran hóp fólks sem hefur fengið vernd á Íslandi og er enn búsett hjá okkur og á að færast áfram í kerfinu, þ.e. til sveitarfélaga.“

Gísli segir þá að félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi verið að kalla eftir samstarfi við fleiri sveitarfélög en þessi þrjú að ofantöldu til að létta álaginu á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert