Krefja Bambus og Flame um 13 milljónir

Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni.
Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Launakröfur þriggja fyrrverandi starfsmanna veitingastaðanna Bambus og Flame hljóða samtals upp á rúmar þrettán milljónir króna.

Hæsta krafan er um sjö milljónir, hjá starfsmanni sem starfaði hjá fyrirtækinu í sextán mánuði, og sú lægsta rúmlega tvær milljónir, hjá starfsmanni sem hafði starfað þar í fimm mánuði. Sömu eigendur eru að báðum stöðunum.

Benóný Harðarson, forstöðumaður kjarasviðs Fagfélaganna, segir um óvenju háar kröfur að ræða, þó þær snúi einungis að því að ná fram lágmarkslaunum fyrir þann taxta sem fólkið var ráðið inn á. Laun fólksins hafi átt að vera allt að þrefalt hærri en þau voru.

„Það er mjög óvenjulegt að svona há krafa komi fram fyrir svona fáa starfsmenn sem hafa unnið í svona stuttan tíma,“ segir Benóný samtali við mbl.is. Um er að ræða lokaútreikninga Fagfélaganna og hefur krafan nú verið send eigendum veitingastaðanna.

Fengu ekki greitt vaktaálag, yfirvinnu eða orlof

Grun­ur um stór­felld­an launaþjófnað vaknaði við vinnustaðaeft­ir­lit Fag­fé­lag­anna á veitingastöðunum fyrr í þessum mánuði og segir Benóný það nú liggja ljóst fyrir að það hafi verið raunin.

Málið varðar starfs­menn sem komu hingað til lands frá Fil­ipps­eyj­um á veg­um vinnu­veit­anda. Talið er að þeir hafi unnið allt að sex­tán tíma á dag á lág­marks­laun­um, sex daga í viku. Hvorki hafi verið greitt vakta­álag, yf­ir­vinna né or­lof.

Benóný segir Fagfélögin hafa fengið einhverjar aðfinnslur við fyrstu útreikninga, sem hafi ekki haldið, og muni eflaust fá fleiri aðfinnslur við lokaútreikninga. Fagfélögin standi hins vegar við sína útreikninga.

„Algjörlega, enda bara gerðir eftir kjarasamningunum. Lágmarkskjörum á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Benóný.

Síminn ekki stoppað hjá Fagfélögunum 

Hann segir augljóst á ákveðin vitundarvakning sé nú að eiga sér stað í þjóðfélaginu varðandi launaþjófnað, enda hafi síminn ekki stoppað hjá Fagfélögunum síðustu daga. Vísbendingar séu um að víða sé pottur brotinn.

„Við erum að fá vísbendingar um það og eigum eftir að skoða það betur, en það virðist vera töluvert um þetta á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Benóný.

Hann vill hvetja stjórnvöld til að taka á launaþjófnaði og setja viðurlög við slíkum brotum.

mbl.is