ASÍ myndi ekki standa í vegi fyrir að flýta viðræðum

Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum fyrst og fremst að bera saman bækur okkar. Við erum að taka samtalið um stöðu mála. Þetta er mikilvægur samráðsvettvangur til að geta verið samstillt á þessum tímapunkti,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands, um fundahöld hjá ASÍ að undanförnu.

Formenn landssambanda og stærstu aðildarfélaga ASÍ komu saman til óformlegs fundar í gær og í annað sinn á skömmum tíma. 

„Í gegnum tíðina hefur þessi hópur fundað nokkuð reglulega en hafði þó ekki gert það í nokkurn tíma þar til í síðustu viku.  Eitt af því sem ég vildi gera þegar ég fékk þetta í fangið [starf forseta ASÍ] var að koma þessu samtali aftur af stað. Í framhaldinu væri hægt að sjá hvort ekki væri hægt að vinna með það. Ég tel það vera bráðnauðsynlegt fyrir okkur að hittast og tala saman enda eru kjarasamningar að losna. Við heyrum þá hvernig hóparnir ætla að fara í þá vinnu. Fólk er samstíga í því að taka þetta samtal okkar á milli þótt efnislega geti alltaf verið mismunandi áherslur,“ en framundan eru viðræður nýja kjarasamninga eins og fólk eflaust þekkir. 

„Núna er að koma að þeim tíma þar sem farið er yfir mögulegar kröfur í hverjum hópi fyrir sig. VR hefur til dæmis lagt fram sínar hugmyndir opinberlega eins og fram hefur komið. Auk þess hefur Starfsgreinasambandið einnig lagt fram kröfugerð sína.“

Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna, sagðist í samtali við Morgunblaðið í vikunni vera tilbúinn til að hefja viðræður við stjórnvöld og aðra viðsemjendur án tafar.  Hvernig blasa slíkar hugmyndir við ASÍ? 

„Í raun og veru blasir það jákvætt við okkur. Við stöndum ekki í vegi fyrir því ef einhverjir hópar vilja fara af stað og ljúka kjarasamningum. BHM er hins vegar fyrst og fremst að semja á opinbera markaðnum því stærstu hóparnir hjá þeim eru þar. Ef ríki og sveitarfélög eru tilbúin í samtalið núna þá er það í góðu lagi en auðvitað er það þeirra að stýra því sjálf hvernig þau fara í samtalið. Við setjum ekki út á það. Ef þeir fá viðsemjendur sína að borðinu geta þeir talað við þá sem þeir vilja og samið ef samningaviðræður ganga upp en það hefur ekki áhrif á stöðuna hjá okkur. Hvernig félögin vinna þetta hjá okkur og hvað við gerum,“ segir Kristján Þórður í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert