Dauðans della að Danir hafi verið fyrstir

Þrátt fyrir að lakkrís hafi fyrst komið til landsins fyrir …
Þrátt fyrir að lakkrís hafi fyrst komið til landsins fyrir tilstilli Dana þá voru það Íslendingar sem eiga heiðurinn af súkkulaði og lakkrísblöndunni, segir Snorri Páll. mbl.is/Brynjar Gauti

Fullyrðingar danska lakkrísframleiðandans Johans Bülow um að hugmyndin að súkkulaðihjúpuðum lakkrís hafi komið frá honum, eru „dauðans della“, að sögn framkvæmdastjóra sælgætisframleiðandans Kólus.

Segir hann að Kúlu-súkk frá Kólus og Draumur frá sælgætisgerðinni Freyju, hafi komið á markað fyrir rúmum 30 árum og fyrir það hafi Íslendingar sjálfir verið að vefja lakkríslengjum utan um súkkulaðistangir og gætt sér á því. 

Þrátt fyrir að lakkrís hafi upprunalega komið til Íslands frá Danmörku þá hafi það verið Íslendingar sem fyrstir hófu framleiðslu á súkkulaðihjúpuðum lakkrískúlum.

Tóm þvæla

„Jón Kjartansson [stofnandi Kólus] byrjaði að framleiða þessar kúlur löngu áður en nokkur annar gerði það í heiminum. Það eru svo hinir og þessir að eigna sér afrek annarra – ef það má kalla það afrek. En þetta er alveg klárlega tóm þvæla sem þeir að halda fram. Það fer ekkert á milli mála,“ segir Snorri Páll Jónsson, framkvæmdastjóri Kólus í samtali við mbl.is

Á vefsíðu lakkrísframleiðandans Bülow er því haldið fram að Johan Bülow hafi fengið þá upprunalegu hugmynd að hjúpa lakkrís með súkkulaði. Hann hafi síðar þróað þessa hugmynd áfram árið 2009 með aðstoð framleiðslustjórans Tage, þrátt fyrir efasemdir fólks.

„Fólk var í fyrstu með efasemdir um hugmyndina en vinsæla varan leit brátt dagsins ljós,“ segir í lýsingu á vefsíðu lakkrísframleiðandans við súkkulaðihjúpaða lakkrísinn.

Alltaf einhver að herma

„Þetta er bara eins og er sagt á íslensku – dauðans della,“ segir Snorri Páll, spurður út í frásögn danska lakkrísframleiðandans sem birtist á vefsíðu fyrirtækisins.

„Svona er þetta bara 370 þúsund manna samfélag og það er alltaf einhver sem er að herma eftir því sem aðrir hafa verið að gera. Við lítum svo á að það hafi verið hermt eftir okkar vöru.“

Þá gerir Snorri Páll einnig athugasemd við að danska lakkrísfyrirtækið segi lakkrísinn vera gæða vöru. Lakkrís eigi að vera framleiddur úr hveiti en danska fyrirtækið framleiði hann úr hríssterkju, meðal annars til að flýta fyrir framleiðsluferlinu og til að geta kallað hann „glútein lausan“. Þannig sé þetta allt önnur vara sem Snorri telur að íslensku lakkrísþjóðinni líki síður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert