Foreldrar auglýsa eftir fleiri börnum

Foreldrar barna á leikskólanum Bakka reyna að gera allt til …
Foreldrar barna á leikskólanum Bakka reyna að gera allt til að koma í veg fyrir rask í skólastarfi barnanna. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Foreldrar barna á leikskólanum Bakka í Staðahverfi í Grafarvogi hafa nú gripið til þess ráðs að auglýsa eftir börnum til að fylla í laus pláss á leikskólanum. Biðja þau foreldra sem geta hugsað sér að hafa börnin sín á Bakka, að setja leikskólann sem fyrsta val í umsókn sinni um leikskólapláss, í þeirri von um að starfsemi leikskólans haldist óbreytt. Aðeins eru um 20 börn í leikskólanum en þar er pláss fyrir um 60 börn.

Helga Dögg Yngvadóttir, móðir barns á Bakka, segist fyrst og fremst hafa orðið hissa, þegar hún frétti af því að það hefði verið sett í hendur foreldra að fjölga börnum í leikskólanum.

„Fólk er að borga útsvar með sköttunum sínum, fyrir ákveðna ákveðna grunnþjónustu sem maður býst við að sveitarfélagið sitt veiti,“ segir Helga Dögg í samtali við mbl.is

„Svo eigum við bara redda þeim þegar þau eru komin í þrot vegna brostinna kosningaloforða í öðrum hverfum,“ segir Helga Dögg jafnframt, og vísar þar til kjörinna fulltrúa hjá borginni „Það er ótrúlegt að þeim skuli detta þetta í hug, ég næ bara ekki utan um það,“ bætir hún við.

Auglýsa líka eftir leikskólakennurum 

Foreldrarnir auglýsa reyndar líka eftir leikskólakennurum til starfa á Bakka en ef börnum fjölgar þarf líka fleira starfsfólk.

„Mér finnst það skrýtið að hægt sé að auglýsa eftir starfsfólki á aðra leikskóla borgarinnar en borgin er ekki tilbúin að auglýsa eftir starfsfólki til að starfa á Bakka, við foreldrarnir eigum að finna fólk,“ segir Helga Dögg.

Þá vísa foreldrar til þess að mikill starfsmannaflótti hafi átt sér stað af leikskólanum í vor og í ljós hafi komið að fyrrverandi aðstoðarleikskólastjóri á Bakka, sem tók við stöðu leikskólastjóra nýs leikskóla í Vogabyggð, hafi ráðið til sín stóran hluta af starfsfólki Bakka.

Helga Dögg telur þetta alls ekki vera fagleg vinnubrögð hjá leikskólakennara sem hafi starfað í þágu barnanna á Bakka og myndað við þau tengsl, að gera leikskólann varnarlausan með þessum hætti.

Númer 35 á biðlista á Bakka

Foreldrarnir hafa dreift auglýsingu á Facebook í foreldrahópa og hópa þar sem fjallað er um dagvistunarmál. Hugmyndin kviknaði eftir fund með fagstjóra leikskólahluta Austurmiðstöðvar í gær, en þar var foreldrum tjáð að vilji væri fyrir því að tryggja áframhaldandi starfsemi leikskólans sjái þau fram á að það sé vilji foreldra að hafa börn sín þar. Foreldrarnir fengu þær upplýsingar að það vantaði umsóknir þar sem fólk setti Bakka sem fyrsta eða annað val um leikskóla.

Foreldrar sem mbl.is hefur rætt við vilja hins vegar meina að þetta hafi alls ekki verið vandamál. Helga Dögg hefur til að mynda heyrt frá foreldri að barn þess hafi verið númer átta á biðlista inn á Bakka í vor en verið tjáð að engar líkur væru á því að barnið kæmist inn núna í haust. Þá hafi hún nýlega heyrt af barni númer 35 á biðlista. Það sé því ljóst að mörg börn bíða eftir plássi á Bakka.

Óljósar fregnir af lokun 

Einnig hafi fjöldi foreldra hafi viljað að börnin sín færu á Bakka, en fengið óljósar upplýsingar um að til stæði að loka leikskólanum, þrátt fyrir að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um það.

Fjöldi foreldra hefur greint frá því, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, að þau hafi viljað sækja um pláss fyrir börn sín á Bakka, en mætt því viðmóti að mikil óvissa væri varðandi leikskólann og líklega yrði honum lokað fljótlega. Foreldrarnir segjast bæði hafa mætt þessu viðmóti hjá stjórnendum leikskólans og hjá borginni þegar spurst hafi verið fyrir um stöðu umsókna. Þetta hafi fælt foreldra frá því að setja Bakka sem fyrsta val um leikskóla.

Svo virðist sem mörg börn bíði þess nú þegar eftir …
Svo virðist sem mörg börn bíði þess nú þegar eftir leikskólaplássi á Bakka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stóð til að færa börnin á annan leikskóla

Síðastliðinn mánudag voru kynnt áform um framtíðarnýtingu húsnæðis leikskólans Bakka. Þar var lagt til að flytja börn með leik­skóla­pláss þar yfir í aðra starfs­stöð leik­skól­ans, leikskólann Hamra við Hamra­vík. Áformin féllu í grýtt­an jarðveg hjá for­eldum. Helgi Grímsson, sviðsstjóra skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar, sagði að yrði þessi leið farin þá væru öll börnin og öll starfsemi þessara sameinuðu leikskóla, á sama stað.

„Við mynd­um svo nýta hús­næðið fyr­ir börn sem eru að bíða eft­ir leik­skóla­plássi. Þá erum við að horfa til þeirra barna sem bíða eft­ir að byrja í leik­skól­an­um sem verður í Voga­byggðinni,“ sagði Helgi.

Vegna mótmæla foreldra hafi hins vegar verið farið strax í að breyta hugmyndinni. Unnið yrði að málinu með foreldrum.

„Þannig að við sett­um strax í skoðun að breyta til­hög­un­inni þannig að þeir sem myndu vilja vera áfram í því hús­næði gætu gert það ef þeir svo kysu en börn­in í Voga­byggð kæmu inn,“ sagði Helgi jafnframt.

Ólíðandi að færa börnin aftur milli skólahverfa 

Helga Dögg bendir þó á að samkvæmt þessari tillögu hafi alltaf staðið til að börnin á Bakka yrðu færð um áramótin, þegar börnin í Vogabyggð færu á sinn rétta leikskóla. Það hafi því aðeins átt að fresta tilfærslunni um nokkra mánuði.

Hún segir það horfa þannig við foreldrum að það sé ekki vilji til þess að halda úti grunnþjónustu fyrir barnafólk í hverfinu. Skemmst sé að minnast þess að Korpuskóla var lokað fyrir tveimur árum og börnin flutt yfir í Engjaskóla. Nú sé því ekki einu sinni verið að bjóða leikskólabörnunum í Staðahverfinu pláss á leikskóla í sínu skólahverfi.

„Mér þykir það algjörlega ólíðandi að það eigi enn og aftur að færa börnin okkar milli skólahverfa með tilheyrand raski eftir hentisemi stjórnsýslunnar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert