Nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla

Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Ellen Calmon framkvæmdastýra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

Ellen Calmon er nýr framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi. Tekur hún við starfinu af Ernu Reynisdóttur, en þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Ellen er með B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands og diplómu í opinberri stjórnsýslu auk þess sem hún leggur stund á meistaranám á því sviði.

„Öll börn þessa heims eiga rétt á að lifa, þroskast og dafna á eigin forsendum og að hugað sé að fjölbreytileika þeirra og styrk. Ég tel vernd og velferð barna eitt mikilvægasta grunnverkefni allra samfélaga sem er einnig aðal tilgangur Barnaheilla,“ segir Ellen.

Víðtæk reynsla

Ellen var formaður Örykrkjabandalags Íslands á árunum 2013-2017 og stýrði innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og verkefninu Opinskátt um ofbeldi í skóla- og frístundastarfi hjá Reykjavíkur borg 2018-2020.

Þá hefur hún einnig gegnt stöðu framkvæmdastýru ADHD samtakanna en undanfarin tvö ár var Ellen borgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi eru hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children sem stofnuð voru árið 1919 og vinna að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

mbl.is