„Ég man ekki eftir öðru eins“

Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður.
Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður. mbl.is/Einar Falur

Erlendur maður sem var hluti af um 14 manna hóp veiðimanna var fluttur á slysadeild eftir að hafa orðið fyrir raflosti á ellefta tímanum í morgun við Eystri-Rangá. 

Gunnar Guðjónsson, yfirleiðsögumaður á svæðinu, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða vana veiðimenn sem hafi veitt margoft í ánni áður, en þeir voru með öðrum leiðsögumanni á staðnum þegar slysið varð.

Gunnar segir aðspurður að við efri hluta árinnar fari rafmagnslínur yfir ána á nokkrum stöðum. En hann tekur fram að þarna hafi einfaldlega verið um slys að ræða. 

Toppurinn rakst í línuna

„Ég hef alveg orðið vitni að því að menn hafa kastað einhverju í rafmagnslínur, en það gerist ekkert þá,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is. Hann bætir við að þarna hafi sjálfur toppurinn á stönginni rekist í línuna með þeim afleiðingum að maðurinn fékk á sig talsvert högg og varð fyrir raflosti. Um sé að ræða stöng úr grafítefni sem leiði rafmagn mjög vel.

„Ég man ekki eftir öðru eins,“ segir Gunnar jafnframt.

Strax var hringt á sjúkrabíl en svo vildi til að einn úr hópnum er læknir að sögn Gunnars, sem hlúði að félaga sínum.

Gunnar segir að sá slasaði hafi verið með meðvitund þegar sjúkrabíllinn kom á vettvang, og var honum ekið með forgangi á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert