Fimmtán hundrað manns fengið þjónustu

Börn í fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu í Hvítasunnukirkju síðasta …
Börn í fjölskyldumiðstöð fyrir flóttafólk frá Úkraínu í Hvítasunnukirkju síðasta vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á undanförnu ári hafa allt að þúsund einstaklingar úr hópi fólks á flótta frá heimalöndum sínum fengið þjónustu alþjóðateymis velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Þess utan hafa nokkur hundruð flóttamenn, einkum frá Úkraínu, fengið þjónustu í miðstöðvum borgarinnar, sér í lagi Vesturmiðstöð, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Hinn mikli fjöldi hérlendis helst í hendur við þróun á alþjóðavísu en aldrei í sögunni hefur fleira fólk verið á flótta vegna ofsókna, stríðsátaka og annarra hörmunga.

Tvö teymi

Alþjóðateymi Reykjavíkurborgar sinnir þjónustu við einstaklinga, börn og fjölskyldur af erlendum uppruna. Undir það heyra tvö teymi; teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd og teymi samræmdrar móttöku flóttafólks.

Fyrra teymið veitir því fólki þjónustu sem er að bíða eftir að umsókn þess um alþjóðlega vernd verði afgreidd og að það hljóti réttarstöðu flóttafólks, en síðara teymið veitir þeim sem komin eru með stöðu þjónustu.  

Núverandi samningur gerir ráð fyrir sérstakri þjónustu, stuðningi og ráðgjöf við 500 einstaklinga í eitt ár frá því að þeir skrá lögheimili sitt í sveitarfélaginu. Fjöldi þeirra sem hafa verið í þjónustu samræmdrar móttöku flóttafólks í eitt ár eða skemur er kominn upp í 714 manns en í þeirri tölu eru bæði fullorðnir og börn.

Þess utan hafa 583 einstaklingar, einkum frá Úkraínu, fengið þjónustu á miðstöðvum borgarinnar undanfarið ár. Bráðlega stendur til að nýr samningur verði undirritaður sem endurspeglar betur þróun undanfarinna mánaða. Bæði er gert ráð fyrir auknum fjölda og lengri þjónustutíma í samræmdri móttöku eða þremur árum í stað eins.  

Aldrei fleiri í heiminum á flótta 

Ljóst er að mun fleiri einstaklingar hafa sest að í Reykjavík en samningarnir gera ráð fyrir. Magnea Marinósdóttir, teymisstjóri í samræmdri móttöku flóttafólks, segir leitina að húsnæði eina stærstu áskorunina sem staðið er frammi fyrir, bæði lítið framboð og hátt leiguverð.

Í tilkynningunni segir hún mikilvægt að hafa í huga að mikil fjölgun flóttafólks sé áskorun sem allar þjóðir heims standa frammi fyrir. Fjöldi fólks á flótta á heimsvísu hafi meira en tífaldast á undanförnum áratug og nú séu rúmlega 21 milljón manns á flótta í heiminum, þar af helmingur börn undir 18 ára aldri, samkvæmt nýlegum tölum Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna.

„Við sjáum þetta einnig á Íslandi þar sem fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hefur margfaldast á milli ára. Þetta er mikil áskorun en að sama skapi er það samfélagsleg ábyrgð að taka vel á móti flóttafólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka og annars konar hörmungarástands. Ríkið þarf í samvinnu við sveitarfélögin að finna úrlausnir á helstu áskorununum sem við stöndum frammi fyrir," segir Magnea. 

Magnea segir þá að Reykjavík og og önnur sveitarfélög hafi verið að gera sitt besta en að fleiri sveitarfélög þurfi að slást í lið með þeim. „Það er því ósk okkar að fleiri sveitarfélög geri samning við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks – því fleiri, því betra,“ segir Magnea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert