Hljómar eins og „stórt og mikið plott“

Það væri „galið“ að sögn Helga að hætta leikskólastarfsemi í …
Það væri „galið“ að sögn Helga að hætta leikskólastarfsemi í húsnæðinu. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir það að sjálfsögðu ekki þannig að foreldrar beri ábyrgð á því að fjölga börnum og starfsfólki á leikskólanum Bakka til að tryggja óbreytta starfsemi. Það megi hins vegar ekki gera lítið úr hve miklu máli það skiptir að foreldrahópurinn standi þétt á bak við leikskóla barna sinna og láti gott orð berast.

„Í öllu farsælu leik- og grunnskólastarfi þá er það aðalsmerki góðs skóla ef foreldrasamfélagið stendur þétt við bakið á skólanum. Ef foreldrar tala vel um skólann og starfsemina og hvetja aðra foreldra, það á við um alla skóla,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Foreldrar barna á Bakka brugðu á það ráð fyrir helgi að auglýsa á samfélagsmiðlum eftir börnum til að fylla laus pláss á leikskólanum. Einnig var auglýst eftir fleira starfsfólki. Á leikskólanum er pláss fyrir 60 börn þegar hann er fullmannaður, en þar dvelja nú um 20 börn.

Foreldrar beri ekki ábyrgð á mönnun

Hugmyndin að auglýsingunni kviknaði eftir fund með fagstjóra leikskólahluta Austurmiðstöðvar í síðustu viku, þar sem foreldrum var tjáð að vilji væri fyrir því að tryggja áframhaldandi starfsemi leikskólans væri það vilji foreldra að hafa börn sín þar. Foreldrarnir fengu hins vegar þær upplýsingar að það vantaði umsóknir þar sem fólk setti Bakka sem fyrsta eða annað val um leikskóla barna sinna.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

Í samtali við mbl.is á föstudag sagðist Helga Dögg Yngvadóttir, foreldri barns á Bakka, vera hissa yfir því að málið hafi verið sett í hendur foreldra með þessum hætti.

Helgi segir þó að það sé ekki raunin. Ábyrgðin sé ekki foreldranna.

„Þessi tillaga kom fram í samtali á fundinum, en að sjálfsögðu eru það ekki foreldrar sem bera ábyrgð á mönnun eða að tryggja fleiri umsóknir. Að sjálfsögðu er það ekki þannig.“

Hugmyndir hafa verið uppi um að færa börnin af Bakka yfir á samstarfsleikskólann Hamra í Víkurhverfi og nota húsnæði Bakka meðal annars undir börn sem hafa fengið úthlutað leikskólaplássi í Vogabyggð, á leikskóla sem hefur ekki starfsemi fyrr en um áramótin. Foreldrar barna á Bakka tóku hins vegar ekki vel í þessa hugmynd og varð niðurstaðan sú að Bakkabörnin verða áfram á Bakka til áramóta ásamt börnunum úr Vogabyggð. En óvissa er með framhaldið vegna viðvarandi lélegrar nýtingar húsnæðisins, að sögn Helga.

„Við erum öll í sama liði“ 

Aðspurður segir Helgi að ef auglýsingar foreldra eftir fleiri börnum og starfsfólki skila árangri, þá hafi það að sjálfsögðu áhrif á ákvarðanatöku um framtíð Bakka.

„Að sjálfsögðu. Við erum öll í sama liði. Þarna erum við og foreldrarnir í Staðahverfi í sama liði. Við viljum bara góða nýtingu á okkar húsnæði og reka gott og farsælt leikskólastarf.“

Vandinn hafi bæði falist í mönnun og aðsókn í leikskólann. „Það hefur ekki gengið vel að ráða og aðsóknin hefur ekki verið jafn mikil og í leikskólum þarna í kring.“

Spurður út í þá staðreynd að minnsta kosti 35 börn séu nú á biðlista eftir því að komast inn á Bakka, líkt og kom fram í frétt mbl.is á föstudag, segist hann vera að vísa til reynslu síðustu ára. Heilt yfir hafi aðsóknin hafi verið minni en á aðra leikskóla.

Hann segist ekki geta sagt til um það hvort óvissa um framtíð leikskólans um árabil hafi haft áhrif á aðsóknina, en foreldrar hafa fengið óljósar upplýsingar um að síðustu árin, bæði frá stjórnendum og borginni, að hugsanlega standi til að loka leikskólanum. Foreldrar hafa sagt frá því í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að þeim hafi hreinlega verið ráðið frá því að sækja um á Bakka.

Hugsanlega rangt að reka Bakka og Hamra saman

Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um lokun leikskólans og segir Helgi að það væri „galið“ að hætta leikskólastarfi í húsnæði Bakka. Það sé einungis verið að skoða hvernig megi ná fram betri nýtingu húsnæðisins.

„Þetta hefur verið vandræðagangur í allnokkur ár. Það er einfaldlega þannig í Staðahverfinu að það eru gríðarlega fáir með börn á leik- og grunnskólaaldri og endurnýjun í þessu hverfi hefur verið hæg. Þá kemur þessi vandi að standa fyrir öflugu fagstarfi, sem stenst líka þær kröfur sem við gerum um rekstarumhverfi.“

Skemmst er að minnast þess að Korpuskóla var lokað fyrir tveimur árum og voru börnin flutt yfir í Engjaskóla. Helgi segir þá breytingu hafa tekist vel og að almenn ánægja sé með tilfærsluna. Í því samhengi hefur verið skoðað hvort það hafi verið rangt að sameina leikskólana Bakka og Hamra, þar sem þeir eru ekki innan sama skólahverfis. Eitt af því sem er til skoðunar er því jafnvel að Bakki fari frekar í samstarf við leikskóla sem tengjast Engjaskóla, hverfisskóla Staðahverfis.

„Við erum búin að vera að finna leiðir þar sem við náum sterku fag- og rekstarumhverfi í þessu húsnæði. Við vitum bara að þetta er það lítil eining og að hún ber sig illa ein og þarf að vera með annarri starfsemi, með samnýtingu leikskólastjóra og annað slíkt,“ útskýrir Helgi.

Enn er óvissa með framtíð leikskólans Bakka.
Enn er óvissa með framtíð leikskólans Bakka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Galið“ að hætta leikskólastarfi í húsinu

Borgarráð fól skóla- og frístundasviði það verkefni að fara í sviðsmyndagreiningu, áhættugreiningu og fjárhagslega greiningu á öllum valkostum þar sem hægt væri að huga að betri nýtingu á húsnæði í eigu borgarinnar sem gæti hentað fyrir leikskólastarf.

„Þegar til lengri tíma er litið þá er faglega og rekstrarlega mjög óstabíll rekstur í svona lítilli einingu. Bara til dæmis ef starfsmaður forfallast, þá er af mjög fáum að taka til að geta hlaupið undir bagga. Sama ef barn þarf á sérstökum stuðningi að halda þá er í svona fámenni miklu minna svigrúm til að koma til móts við þarfir einstaklinga. Líka þegar kemur að rekstrinum, hvað varðar mötuneyti og annað slíkt.“

Þess vegna hafi verið farnar leiðir til að reyna að ná fram betri nýtingu með öðrum hætti. „Þá kom fram sú hugmynd að hleypa þeim börnum sem eru í Vogabyggðinni, sem færu í þann leikskóla, að koma tímabundið upp í Bakka þannig að þau gætu hafið leikskólavist fyrr. Síðan þegar Vogabyggðin er tilbúin þá færu þau þangað niður eftir.“

Foreldar barna í Vogabyggð hafi tekið vel í þessa hugmynd og einnig starfsfólkið sem búið er að ráða á leikskólann þar. Svo vill til að að leikskólastjórinn á væntanlegum leikskóla í Vogabyggð var áður aðstoðarleikskólastjóri á Bakka og margt starfsfólk fylgdi henni á nýja starfsstöð síðastliðið vor. Foreldrar barna á Bakka hafa gagnrýnt þessar ráðningar þar sem starfsfólk vantar á leikskólann.

„Í augum einhverra hljómar þetta eins og stórt og mikið plott, að okkur gangi það til að loka þessari starfsemi. En það eru engin áform frá borginni um það að hætta starfsemi leikskóla í þessu húsnæði. Okkur vantar húsnæði fyrir leikskólastarf og það væri einfaldlega galið ef við færum að hætta að reka leikskólastarf í þessu húsi. Hvort sem það væri á vegum borgarinnar eða einkaaðila,“ segir Helgi.

Heiðarlegt að leggja spilin á borðið

Einnig sé verið að skoða möguleika á því að hefja leikskólastarfsemi í Korpuskóla, sem er við hliðina á Bakka. Arkitektar hafi fengið það verkefni að skoða breytingar á húsnæðinu með tilliti til leikskólastarfs.

„Það er ekki búið að negla neitt niður. Við erum ennþá að raða þessum púslum. Við erum með þetta verkefni að gera eins og við getum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og við höldum ótrauð því verkefni.“

Skóla- og frístundasvið hafi viljað upplýsa foreldra um hugmyndir sem lágu á teikniborðinu og kalla eftir samtali um þær.

„Mér fannst mjög heiðarlegt af okkur að leggja þessi spil á borðið gagnvart foreldrum áður en myndin væri fullkláruð. Það er hluti af þessu áhættumati að máta hvernig hlutir hljóma. Við höldum þessu samtali áfram við foreldarna, en um leið með það í huga að ná betri nýtingu á húsnæðinu.“

Að sögn Helga hefur engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvernig leikskólastarfi verður háttað á Bakka í framtíðinni. Hvort börnin á Bakka fara yfir á samstarfsleikskólann Hamra, eða hvort þau verða áfram á Bakka. Það eina sem liggur fyrir er að börnin úr Vogabyggð koma inn á leikskólann ásamt því starfsfólki sem ráðið hafði verið á þangað, og verða á Bakka til áramóta. Hvað svo verður er enn óljóst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert