Skoða líka aðdraganda skotárásarinnar

Páley segir allt undir í rannsókninni og verið sé að …
Páley segir allt undir í rannsókninni og verið sé að rannsaka marga þætti sem ekki liggja fyrir að svo stöddu. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Maður sem særðist alvarlega þegar hann varð fyrir skotárás á Blönduósi þann 21. ágúst síðastliðinn fékk réttarstöðu sakbornings um leið og skýrsla var tekin af honum eftir að hann komst til meðvitundar. Sú ákvörðun hafði verið tekin fyrirfram og maðurinn upplýstur um það, að sögn Páleyjar Borgþórsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra.

Tveir hafa réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins. Maðurinn sem varð fyrir árásinni og sonur hans, sem talinn er hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins. Tvennt lést í árásinni, eiginkona mannsins og árásarmaðurinn sjálfur, en hann hafði þá náð að skjóta á hjónin með fyrrgreindum afleiðingum.

Venjan er sú að ef einhver vafi er talinn vera á því að eitthvað komi fram við skýrslutöku sem geti varpað sök á menn þá fá þeir réttarstöðu sakbornings. Það er gert svo viðkomandi sé ekki að fjalla um eigin sök án þess að hafa verjanda sér til aðstoðar.

Allt undir í rannsókninni

Aðspurð hvers vegna maðurinn sem ráðist var á fær réttarstöðu sakbornings í þessu máli segir Páley: „Réttarstaða sakbornings er veitt vegna stöðu þessara aðila í málinu. Þeir voru báðir á vettvangi þegar skotmaðurinn lést.“

Ekki liggur þó fyrir hvernig árásarmaðurinn lést eða hvort honum var ráðinn bani. Enn er beðið eftir niðurstöðu réttarkrufningar sem mun varpa ljósi á dánarorsök. Ekki er vitað hvenær þær niðurstöður berast, en Páley segir slíka rannsókn geta tekið sinn tíma. „Þetta er viðamikið verkefni og allt undir í rannsókninni.“

Rannsókn á svo stóru og alvarlegu máli taki alltaf einhvern tíma. „Það er verið að rannsaka marga þætti sem liggja ekki fyrir að svo stöddu.“

Fyrir liggur að taka þurfi aðra skýrslu af manninum sem …
Fyrir liggur að taka þurfi aðra skýrslu af manninum sem varð fyrir árásinni, en hann hefur réttarstöðu sakbornings. mbl.is/Hákon

Ræða þarf aftur við hinn særða

Maðurinn sem varð fyrir skoti liggur enn á sjúkrahúsi og er veikburða. Hann hefur ekki gefið aðra skýrslu en Páley segir liggja fyrir að ræða þurfi við hann aftur.

Einhverjir hafa stöðu vitnis í rannsókninni en Páley vill ekki gefa upp hve margir það eru.

„Við látum einskis ófreistað og gerum það sem við þurfum að gera til að upplýsa málið. Það þýðir að við þurfum að tala við fleiri en færri. Við erum að skoða aðdragandann líka.“

Páley segir meðal annars unnið með síma- og tölvugögn, auk annarra gagna sem aflað hefur verið með rannsókninni.

Aðspurð hvort þessi gögn hafi varpað frekara ljósi á atburðarásina segir Páley: „Við erum að reyna að fá rétta mynd af atburðunum. Auðvitað er hvert einasta gagn púsl inn í þessa mynd.“ Verið sé að rannsaka alla þætti málsins og þá sé allt undir.

Fram hefur komið að lögregla hafi grófa mynd af atburðarásinni og Páley segir að öll gögnin komi til skoðunar, en endanleg mynd liggi ekki fyrir fyrr en að fullrannsökuðu máli.

mbl.is