Áslaug Arna valin stjórnmálamaður ársins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tók í dag á móti Politician of the Year 2022 verðlaununum á One Young World ráðstefnunni sem að þessu sinni fer fram í Manchester á Englandi.

Áslaug var valin sigurvegari úr hópi fimmtán ungra stjórnmálamanna víðs vegar að úr heiminum sem voru tilnefnd til verðlaunanna.

„Þetta er hvatning og skemmtileg viðurkenning ekki bara fyrir mig persónulega heldur varpar hún ljósi á þá staðreynd að á Íslandi fær ungt fólk tækifæri til að láta til sín taka,“ sagði Áslaug Arna þegar úrslitin voru gerð kunn.

Politician of the Year verðlaunin voru fyrst veitt árið 2018 en þeim er ætlað að beina athygli að ungum og efnilegum stjórnmálamönnum um allan heim. Á vefsíðu One Young World kemur fram að stefnt er að því með ráðstefnunni að leiða saman yfir tvö þúsund manns víðs vegar að úr heiminum sem öll eiga það sameiginlegt að vera leiðtogar á sínu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert