Spænskur veiðimaður sagður á batavegi

Haustbirta við Eystri-Rangá.
Haustbirta við Eystri-Rangá. mbl.is/Árni Sæberg

Líðan veiðimannsins sem fékk raflost er hann var að veiða í Eystri-Rangá í gær er nokkuð góð og virðist betur hafa farið en á horfðist.

Þetta segir Gunnar Guðjónsson, yfirleiðsögumaður á svæðinu.

Maðurinn er spænskur og var hluti af 14 manna hópi Spánverja sem var að veiða í ánni. Með honum á svæðinu þar sem hann slasaðist voru þrír aðrir, ásamt leiðsögumanni. Sumir í hópnum hafa veitt í ánni í yfir 20 ár og hefur sá sem slasaðist áður veitt þar.

Allt að 10 metra langar stangir

Að sögn Gunnars eru rafmagnslínur í um átta metra hæð frá jörðu yfir þremur af níu veiðisvæðum í ánni, eða svæðum sex til átta sem eru í efri hluta árinnar. Umræddur maður hélt á veiðistöng af gerðinni Telescope, sem geta verið allt að tíu metra langar.

„Hann heldur á henni og reisir hana upp. Það er enginn Íslendingur sem notar svona stangir en þú getur lengt og stytt þær eftir því hvernig þú ert að veiða,“ greinir Gunnar frá.

Svona gerist ekki aftur

Spurður út í viðbrögð umsjónarmanna árinnar við slysinu segir hann að vitaskuld þurfi að passa upp á að svona lagað gerist ekki aftur, sérstaklega ef menn eru með veiðibúnað sem þennan.

Hann segir veiðimenn yfirhöfuð vita af hættunni vegna rafmagnlína og háspennumerkingar séu á þeim. Spánverjarnir hafi vitað af hættunni. Þetta hafi einfaldlega verið slys. „Veiðimenn fá veiðileyfi og veiða við fullt af ám á Íslandi en það eru rafmagnslínur úti um allt. Flestir Íslendingar átta sig hættunni við háspennulínur.“

Gunnar tekur fram að raflínur verði lagðar í jörð á svæðinu á næstu mánuðum og þá verði vandamálið úr sögunni.

Ekki verið rætt við manninn

Lögreglan á Suðurlandi rannsakaði vettvanginn í gær og hefur hún lokið störfum á svæðinu. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir rannsókn enn vera í gangi en reiknar ekki með að hún verði flókin. 

„Hann rekur bara stöngina upp í línuna og í sjálfu sér er ekkert margt um það að segja,“ segir hann. Ekki hefur verið rætt við manninn og óvíst er hvenær það verður gert. Fer það eftir heilsu hans.

Aðspurður kveðst Oddur jafnframt aldrei áður hafa heyrt um mál af þessu tagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert