Mikilvægt að fræða fólk strax

Hóptími í sjúkraþjálfun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni …
Hóptími í sjúkraþjálfun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hreyfing og styrktarþjálfun undir handleiðslu er fyrst og fremst það sem fólk þarf að huga að til að vinna gegn slitgigt. Beita þarf forvörnum í auknu mæli og grípa fólk fyrr með því að ýta undir virkni.

Þetta segir Gunnlaugur Már Briem, formaður Félags sjúkraþjálfara. Í dag er alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfara og í ár er aðaláherslan á slitgigt, sem er einn af algengari kvillum sem hrjá bæði Íslendinga og aðrar þjóðir.

Hærri aldur

Nýgengi slitgigtar í heiminum hefur aukist mikið síðustu áratugi, eða um 48% frá árinu 1990. Þetta þýðir að næstum helmingi fleiri greinast með slitgigt árlega nú en greindust árlega árið 1990.

„Hluti af þessu skýrist á því að núna erum við, og þá sérstaklega í hinum vestræna heimi, að verða eldri. Lífslíkur eru að aukast og eftir því sem aldurinn hækkar því meiri verður þessi byrði, bæði fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild sinni,“ segir Gunnlaugur Már.

Staðreyndir og mýtur um slitgigt:

Ljósmynd/Aðsend

80% yfir 75 ára með slitgigt

Talið er að um 80% fólks yfir 75 ára séu með slitgigt. Samhliða hækkandi aldri þjóðarinnar má því búast við að fjöldi þeirra sem þjást af slitgigt eigi eftir að aukast enn frekar.

Þeir sem hafa fengið liðáverka og m.a. þurft að gangast undir aðgerðir, eru mun líklegri til að þróa með sér slitbreytingar og slitgigt. Yfirþyngd hefur einnig áhrif, auk þess sem sjúkdómurinn leggst frekar á konur en karla, að sögn Gunnlaugs Más.

Í stöðuskýrslu um langvinna verki sem var unnin fyrir heilbrigðisráðuneytið í fyrra kemur fram að slitgigt var algengasta orsök slíkra verkja hjá fullorðnu fólki.

Á Íslandi er algengi langvinnra verka um 20 til 40% á meðal fullorðinna. Nýgengi langvinnra verkja er talið vera um 5.4% á ári í heiminum, en ekki er til íslensk rannsókn hvað það varðar.

Mikil þörf á fræðslu

Greining sjúkdómsins ein og sér getur einnig haft neikvæð áhrif vegna hræðslu um að valda frekari skemmdum og skorts á fræðslu og upplýsingum. Fyrir vikið draga margir úr virkni sinni í von um að líða betur. Gunnlaugur Már segir því mikilvægt að fræða fólk strax um forvarnir, hreyfingu og hvernig hægt er að draga úr áhrifum sjúkdómsins.

„Það að greinast með slitgigt þarf ekki að vera neinn dómur, því með réttri meðhöndlun fagaðila, þar sem sjúkraþjálfarar eru sérfræðingar á sviði stoðkerfiseinkenna er í mörgum tilfellum hægt að halda einkennum sjúkdómsins niðri og auka eða viðhalda lífsgæðum,“ segir Gunnlaugur Már. 

mbl.is