„Það þarf meira til að raska okkar ró“

Grímsey.
Grímsey. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við Grímseyingar hrökkvum ekki upp við þetta. Þetta er ekkert sem að raskar okkar ró, það þarf meira til þess,“ segir Ragnhildur Hjaltadóttir, eigandi gistiheimilisins Bása í Grímsey, í samtali við mbl.is um skjálftann sem reið yfir eyjuna á milli kl. fjögur og fimm í nótt.

Skjálftinn var af stærðinni 4,9 og mæld­ist um 12 km austn­orðaust­ur af Gríms­ey. 

Fjöldi eft­ir­skjálfta hefur fylgt í kjöl­farið en hrin­ur á þessu svæði eru al­geng­ar og byrjaði hrin­an í nótt um tvöleytið.

Finnst ekki í mínu húsi

„Þetta nefnilega finnst ekki í mínu húsi,“ segir Ragnhildur, „það eru bara þessir skjálftar sem fara yfir 4 sem finnast smá.“

Ragnhildur segir þá að erlendu ferðamennirnir sem gista á Básum um þessar mundir hefðu orðið skelkaðir en meðal þeirra eru þrír Bandaríkjamenn og tveir frá Svíþjóð.

„Þeir héldu að ketillinn hefði sprungið í húsinu eða að eitthvað alvarlegt hefði gerst. Svo er þetta skemmtilegt, það er svartaþoka og þeir fengu ekki norðurljós en þeir fengu jarðskjálfta.

Við reynum að gera eitthvað skemmtilegt fyrir þá,“ segir Ragnhildur og hlær.

mbl.is