Mátt hlæja að fólki sem flýgur í hálkunni

Húmor er eins konar ofurkraftur sem allir ættu að geta gripið í og notað við ýmsar aðstæður í okkar krefjandi samfélagi. Þetta bendir Sveinn Waage, skemmtikraftur, markaðsfræðingur og sérfræðingur í samskiptum en hann er höfundur námskeiðanna og fyrirlestranna Húmor virkar. Rannsóknir hafa sýnt fram á ótrúlega virkni, virði og gagnsemi húmors sem getur aukið árangur til dæmis í viðskiptalífinu og á vinnustöðum og getur bókstaflega bætt heilsuna. Sveinn ræðir um húmorinn og víðtæk áhrif hans í Dagmálum, frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins. 

Þar ræðir Sveinn meðal annars um það hvernig húmor getur skapað nauðsynlegt jafnvægi í þeim heimi sem við búum í þar sem neikvæðar fréttir eru hvarvetna. 

„Við stýrum því rosalega mikið sjálf hvernig við sjáum heiminn. Fyrir svona fréttafíkil eins og mig getur verið krefjandi að finna jafnvægið,“ segir Sveinn.

„Er maður að fara að dýfa sér ofan í það eða þarf maður að búa til einhvers konar jafnvægi?“ spyr Sveinn og bendir á að oft neyðist fólk bókstaflega til að varpa ákveðnum samfélagslegum vandamálum eða fréttum upp í grín. Hann bendir á að oft sé það „þetta óvænta“ sem fær fólk til að hlæja.

„Ef þú lendir í því núna þegar það fer að kólna, að þú sérð einhvern fljúga með tilþrifum í hálku, með útlimum og svoleiðis, og þú hlærð að því, þá er það ekki af því að þú ert vond heldur er það þetta „surprise eliment“ sem er eðlislægt. Þannig að þú mátt. En svo máttu tékka hvort það er í lagi með viðkomandi. Svo þegar allt er í lagi máttu hlæja eftir á,“ segir Sveinn.

Viðtalið má sjá í heild sinni með því að smella hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert