„Hafa verið stærri og fleiri skjálftar en venjulega“

Horft yfir hafnarsvæðið í Grímsey.
Horft yfir hafnarsvæðið í Grímsey. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Við erum ýmsu vön, en mér finnst þetta búið að vera heldur mikið núna. Þetta hefur verið mjög ört í dag og alveg þannig að maður hefur verið að finna þá,“ segir Halla Ingólfsdóttir, um jarðaskjálftahrinu austan við Grímsey en hún rekur ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Trip í eyjunni.

Greint var frá því í dag að Rík­is­lög­reglu­stjóri hef­ði, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Norður­landi eystra, lýst yfir óvissu­stigi al­manna­varna vegna jarðskjálfta­hrinu úti fyr­ir Norður­landi.

Mælst hafa um 2600 jarðskjálft­ar frá því að skjálfti að stærð 4,9 reið yfir í gær 8. sept­em­ber. 

„Auðvitað er manni ekki sama“

„Ég segi ekki að við séum skíthrædd en þeir sem búa hérna segja að þau séu orðin vön jarðskjálftum á haustin en þeir hafa verið fleiri og stærri en venjulega. Venjulega eru þeir 1 eða 2 að stærð,“ segir Halla sem hefur búið meira og minna í Grímsey síðastliðin 25 ár og segist alveg hætt að finna fyrir þessum minni skjálftum.

„Auðvitað er manni ekki alveg sama, alls ekki sérstaklega núna þegar er verið að tala um að það gæti farið að gjósa,“ bætir Halla við en eldfjalalfræðingurinn Þorvaldur Þórðarson sagði í gær að ekki væri hægt að útiloka neðansjávargos á svæðinu þó að ekkert bendi til þess eins og staðan er núna.

Spurð hvernig túristum í eyjunni lítist á blikuna segir Halla að sumir séu hræddir en aðrir spenntir.

Flugsýn til Grímseyjar. Horft til norðurs.
Flugsýn til Grímseyjar. Horft til norðurs. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert