Forsetahjónin á leið í krýningarafmæli Margrétar

Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid í heimsókn í Danmörku …
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid í heimsókn í Danmörku árið 2017. mbl.is/Golli

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Eliza Reid forsetafrú halda í dag til Kaupmannahafnar og taka þar þátt í hátíðahöldum í tilefni 50 ára krýningarafmælis Margrétar II Danadrottningar.

Vegna andláts Elísabetar II Bretadrottningar hefur danska konungshöllin nú tilkynnt að viðburðurinn verði með lágstemmdari hætti en til stóð. Margrét var krýnd drottning þann 14. janúar 1972 eftir andlát föður hennar, Friðriks IX Danakonungs. Af sóttvarnarástæðum var hátíðahöldum í janúar frestað til haustsins.

Hátíðardagskráin hefst með sýningu í Konunglega danska leikhúsinu í Kaupmannahöfn á laugardagskvöld og að morgni sunnudags verður haldið til messu í Frúarkirkju, að því er segir í tilkynningu.

Að lokinni messu snæða þjóðhöfðingjar Norðurlandanna hádegisverð ásamt konungsfjölskyldunni um borð í hinni konunglegu snekkju Dannebrog. Dagskránni lýkur síðan með kvöldverði í Friðriksborgarhöll á sunnudag.

Riddaraskjöldur afhjúpaður

Á mánudag verður riddaraskjöldur forseta Íslands afhjúpaður í Riddarakapellunni í Friðriksborgarhöll að viðstöddum forsetahjónum, sendiherra Íslands í Danmörku og fulltrúum dönsku hirðarinnar. Slíkir skildir eru gerðir til heiðurs þeim sem hljóta fílaorðuna, æðsta heiðursmerki danska ríkisins. Forseti var sæmdur orðunni árið 2017.

Síðdegis á mánudag mun Guðni flytja fyrirlestur við Kaupmannahafnarháskóla um stöðu smáríkja á alþjóðavettvangi og sameiginlegu sögu Íslendinga og Dana í aldanna rás. Forsetahjónin fljúga aftur til Íslands á mánudagskvöld.

mbl.is