Tveir öflugir skjálftar á sömu mínútu

Grímsey er nú vel vöktuð.
Grímsey er nú vel vöktuð. mbl.is/Golli

„Þetta er venjuleg jarðskjálftahrina eins og hefur orðið þarna oft áður, en það er auðvitað alltaf jafn óþægilegt að upplifa það,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Jarðskjálfti að stærð 4,1 reið yfir suðvestur af Kolbeinsey laust eftir klukkan sjö í kvöld. Á sömu mínútu mældist 3,6 stiga skjálfti suðaustur af Grímsey. Eru þetta tölur sem fram koma í óyfirförnum frumniðurstöðum Veðurstofi Íslands. 

Mbl.is greindi frá því fyrr í dag að varðskipið Þór myndi halda norður og standa vaktina við Grímsey, en síðan í gær hefur skjálftahrina riðið yfir á svæðinu og var óvissustigi almannavarna lýst yfir.

Klukkan hálf fimm í dag höfðu 2105 skjálftar riðið yfir frá miðnætti. Nokkrir skjálftar hafa mælst yfir stærð þrjá.

Að sögn Sigríðar má búast við því að jörð haldi áfram að skjálfa á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert