Varðskipið Þór mun standa vaktina við Grímsey

Um borð er þrautþjálfuð 18 manna áhöfn.
Um borð er þrautþjálfuð 18 manna áhöfn. mbl.is/ Hákon Pálsson

Stöðufundur var haldinn í dag með viðbragðsaðilum vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi, en óvissustigi almannavarna var lýst yfir í gær. 

Á stöðufundinum var óskað eftir því að varpskipið Þór héldi norður og yrði til taks, ef á þyrfti að halda. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Þrautþjálfuð áhöfn um borð

„Um borð í skipinu er 18 manna þrautþjálfuð áhöfn sem getur sinnt ýmsum verkefnum sem kunna að koma upp. Skipið verður til taks fyrir norðan eins lengi og þörf þykir, en staðan verður tekin aftur á mánudag,“ segir Ásgeir í viðtali við mbl.is.

Einkum er litið til þess að skipið komi að gagni ef rýma þyrfti eyjuna. 

Varðskipið er nú þegar lagt af stað norður og er í Breiðafirði þegar þessi frétt er skrifuð. Búist er við að það verði komið norður fyrir Akureyri í kvöld og mun það svo vera til taks í Eyjafirði fram á mánudag hið minnsta.

Óþægilegt að vera í slíkri nánd við upptökin

Engar sérstakar breytingar hafa orðið en talsverð skjálftavirkni er enn á svæðinu, austur og suðaustur af Grímsey. Síðastliðinn sólarhring hafa orðið 24 skjálftar sem mælst hafa 3 stig eða meira og hafa þeir fundist inn til Akureyrar. 

Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur verið í sambandi við íbúa í Grímsey vegna þeirrar stöðu sem komin er fram. Í tilkynningu frá lögreglu segir að íbúar séu almennt rólegir yfir stöðu mála „þó svo að það sé ávallt óþægileg tilfinning að vera í slíkri nánd við upptökin og að vera svona afskekkt ef að eitthvað skildi koma uppá.

Áfram verður fylgst vel með þróuninni og hefur verið boðað til næsta stöðufundar á mánudaginn, eða fyrr ef tilefni þykir til þess. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert