Nær fjórðungur umferðarslysa á Austurlandi í ágúst

Nokkrir ökumenn þurftu að leita aðhlynningar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á …
Nokkrir ökumenn þurftu að leita aðhlynningar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum í ágúst, þar sem þessi mynd er tekin. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Umferðarslys í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi hafa ekki verið fleiri einn og sama mánuðinn það sem af er ári en þau voru í ágúst. Kemur þetta fram í samantekt lögreglu þar eystra á Facebook-síðu hennar.

Voru slysin alls níu og þurftu ellefu manns að leita sér læknisaðstoðar af þeirra völdum. Á árinu eru 32 umferðarslys skráð í umdæminu og lætur því nærri að fjórðungur þeirra hafi orðið í ágúst auk þess sem nefna má að á sama tíma í fyrra höfðu 22 slys verið skráð, tíu færri en nú.

Piltur á reiðhjóli hjólaði af göngustíg inn á bifreiðastæði á Egilsstöðum og lenti þá framan á bifreið en gróður hafði tálmað sýn ökumanns hennar. Fékk piltur aðhlynningu hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Framúrakstur endaði illa

Þá valt vörubifreið við Lagarfossveg eftir að hún mætti annarri bifreið og vék út í kant til að bifreiðarnar kæmust hvor fram hjá annarri. Ekki fór þá betur en svo að vegkanturinn gaf sig undan þunga vörubifreiðarinnar sem valt. Ökumaður hennar slasaðist ekki alvarlega.

Daginn eftir þetta atvik var bifreið ekið fram úr röð bifreiða á Hringveginum við Heiðarsel á Jökuldalsheiði. Við framúraksturinn kom umferð á móti aðvífandi og sá ökumaðurinn sitt óvænna og ók inn í röðina er hann var að taka fram úr. Ók hann þá utan í bifreið þar, missti stjórn á sinni eigin og velti henni utanvegar. Voru þrír fluttir til aðhlynningar en áverkar þeirra reyndust minni háttar.

Þá velti ökumaður fjórhjóli sínu á slóða við Borgarfjarðarveg austan Brennistaða. Ökklabrotnaði hann og hlaut skrámur og var færður á sjúkrahúsið í Neskaupstað.

Sama dag varð ungur piltur fyrir bifreið þar sem hann var hjólandi á gangbraut við gatnamót á Reyðarfirði en gróður skerðir útsýn við gatnamótin. Bifreiðin var á lítilli ferð en piltur marðist á sköflungi og skrámaðist.

Þriðja slysið þennan sama dag, 7. ágúst, varð með þeim hætti að ökumaður missti stjórn á bifreið á Borgarfjarðarvegi þar sem framkvæmdir stóðu yfir. Endaði bifreiðin utan vega, ökumaður hlaut minni háttar kaun en farþegi slapp með skrekkinn.

Reyndi að þyrma lífi lambs

Þá missti ökumaður bifhjóls stjórn á færleik sínum á Fjarðarheiði og ók út af veginum. Var hann talsvert lerkaður og illa áttaður eftir óhappið og fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir viðkomu á Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Þá valt bifreið á Sunnudalsvegi í Vopnafjarðarhreppi þegar ökumaður hennar reyndi að forðast að aka á lamb sem hljóp út á veginn. Ók hann út af veginum með fyrrgreindum afleiðingum en hafði ekki erindi sem erfiði og ók á lambið sem drapst. Ökumaður leitaði til heilsugæslu en farþega sakaði ekki.

Að lokum varð annað fjórhjólaslys í Loðmundarfirði undir ágústlok þegar ökumaður þess ók á grjót á vegslóða, missti tak á stýri ökutækisins og féll af því. Hlaut hann beinbrot og mar.

Lögregla lýkur frásögninni með því að hvetja ökumenn til að gæta vel að sér í umferðinni, hvort heldur sem þeir séu á ferð innanbæjar eða utan, á vegslóðum eða annars staðar. „Gætum að eigin öryggi og annarra, ökum varlega,“ eru lokaorð lögreglunnar á Austurlandi.

mbl.is