Framboð lóða verið stærsti flöskuhálsinn

Sigurður Ingi við undirritun rammasamningsins í júlí.
Sigurður Ingi við undirritun rammasamningsins í júlí. mbl.is/Arnþór

„Nú verða allir að róa í sömu átt, leggja hendur á dekk og leggja allt kapp á að tryggja aukið framboð íbúða,“ sagði Sigurður Inga Jóhannssonar innviðaráðherra á upphafsfundi varðandi framkvæmd rammasamnings um aukið framboð íbúða á árunum 2023-2032 en tilgangur fundarins var að hrinda af stað formlegu samtali milli ríkis og sveitarfélaga

Sigurður sagði samninginn vera upphafið að langtímastefnu á sviði húsnæðismála sem hingað til hefur vantað. Þá sagði hann þátttöku til samningana eðlilega vera frjálsa en að þau sveitarfélög sem gera samninga munu skuldbinda sig til að auka framboð lóða til samræmis við gerðan samning.

Líkt og áður hefur komið fram á að byggja 35.000 íbúðir á næstu árum. Fjölga á íbúðum um 20.000 á næstu fimm árum og um 15.000 á næstu fimm árum á eftir. Þá eiga 30% íbúðanna að vera hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði og 5% til viðbótar verða bein félagsleg úrræði.

4.000 fleiri íbúðir en í áætlunum

Kom fram í máli Sigurðar að í húsnæðisáætlun er aðeins gert ráð fyrir 16.000 íbúðum á næstu fimm árum og það sé því til mikils að vinna að fylla upp í það sem vantar.

Sigurður Ingi benti á að lóðaframboð er lykilþáttur í tryggja uppbyggingu íbúða og að það hvíli á sveitarfélögunum að útvega byggingarhæfar lóðir í samræmi við þörfina sem húsnæðisáætlanir endurspegla og kalla á.

„En þar sem er ekki öll sagan sögð því framboð byggingar hæfra lóða er stærsti einstaki flöskuhálsinn og því miður hefur það verið svo að það hefur verði erfiðleikum bundið fyrir einstök sveitarfélög að útvega nægilegan fjölda byggingarhæfra lóða hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir því.“

Hann bætti við að ein ástæðan fyrir því kynni að vera kerfislegur vandi sem greiða þurfi úr og að sá vandi skrifist jafnt á ríki og sveitarfélög.

Gert ráð fyrir auknum húsnæðisstuðningi

Sigurður Ingi bætti við að á grundvelli starfshóps um húsnæðisstuðning væri gert ráð fyrir auknum stuðningi frá því sem að gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem var kynnt í gær og mun stuðningurinn birtast í vinnu Fjárlaganefndar Alþingis og við aðra umræðu fjárlaga. Sagði hann ástæðuna vera sú að starfshópurinn væri enn að störfum

„Ég hlakka til að sjá hvers við megum vænta á næstu árum, því við þurfum að bretta upp ermar,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert