Heimabúnar sprengjur ástæða sprenginga á Selfossi

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Undanfarna daga hefur lögreglunni á Suðurlandi borist tilkynningar um sprengingar á Selfossi. Greint er frá þessu í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi þar sem lögreglan staðfestir að um heimabúnar sprengjur er að ræða þar sem notast er við ætandi efni ásamt öðrum efnum við gerð búnaðarins.

Í færslunni greinir lögreglan frá því að framangreindum efnunum er blandað saman í lokuð plastílát, s.s. gosflöskur, og að þau efnahvörf sem verða með því leiða svo til þess að gas myndast sem veldur sprengingu.

Hættuleg efni

Lögreglan segir efnin og gasið sem myndast vera hættuleg fyrir þann sem útbýr sprengjuna og fyrir þá sem eru í nágrenni við búnaðinn þegar sprengingin verður, en til eru dæmi um einstaklinga sem hafa laskað á sér hendurnar af samskonar sprengjum. Þá segir í færslunni að ekki þurfi heldur að fjölyrða um skaðsemi þess að ætandi efni lendi á húð og jafnvel í andlit og augu viðkomandi.

Vegna framangreinds biðlar lögreglan til foreldra að fylgjast með hvort börn þeirra séu að meðhöndla slík efni sem og að þau fræði börn sín um mögulega skaðsemi heimatilbúinna sprengja. Sömuleiðis óskar lögreglan eftir öllum þeim upplýsingum sem almenningu kann að búa yfir í tengslum við sprengingarnar eða háværa hvelli sem kunna að hafa heyrst síðastliðna daga.

mbl.is