Lést eftir umferðarslys

Lögreglan á Norðurlandi eystra segir að maður sem slasaðist alvarlega í umferðarslysi í Þingeyjarsveit 7. september sé látinn. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. 

Þar segir að þann 7. september hafi lögregla verið kölluð til vegna alvarlegs umferðarslyss í Þingeyjarsveit. Þar hafði fjórhjól oltið þegar því var ekið eftir gömlum vegslóða, með þeim afleiðingum að ökumaðurinn, karlmaður á áttræðisaldri, slasaðist alvarlega.

Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri til aðhlynningar og síðar á Landspítala háskólasjúkrahús í Reykjavík þar sem hann lést þann 9. september síðastliðinn vegna áverka sinna.

Lögreglan á Norðurlandi eystra fer með rannsókn málsins og er hún langt komin.