Barði í borðið og Málfríður fór grátandi út

Jón Hjaltason.
Jón Hjaltason.

Jón Hjaltason sagnfræðingur og þriðji maður á framboðslista Flokks fólksins á Akureyri segir að hann og Brynjólfur Ingvarsson, efsti maður á lista og bæjarfulltrúi flokksins, muni fara fram á lögreglurannsókn á ásökunum þriggja kvenna á lista flokksins á Akureyri, þeirra Málfríðar Þórðardóttur, Tinnu Guðmundsdóttur og Hannesínu Scheving Virgild Chester, í garð þeirra. Telur hann augljóst að ásökununum sé beint að þeim tveimur.

Konurnar þrjár sem um ræðir stigu fram í kjölfar yfirlýsingar Guðmundar Inga Kristinssonar varaformanns flokksins en hann greindi frá ítrekuðum fregnum af niðrandi og fyrirlitlegri framkomu í garð kvenkyns leiðtoga flokksins og sjálfboðaliða á Akureyri að undanförnu sem  trúnaðarmenn flokksins höfðu upplýst hann um.

Í yfirlýsingu þremenninganna er því m.a. lýst að sumar þeirra hafi mátt sæta kynferðislegu áreiti og „virkilega óviðeigandi framkomu auk þess að vera sagðar ekki starfinu vaxnar og geðveikar“.

Veikindaleyfi ella rekinn

„Á þriðjudaginn seinasta var boðað til fundar. Brynjólfur gat ekki mætt á þann fund en þessar konur tóku því illa og hafa nú klagað okkur, en ég geri nú ráð fyrir því að ásakanirnar hafi beinst að okkur.

Þennan sama dag hringdi Inga Sæland [formaður Flokks fólksins] og talaði um nauðsyn þess að Brynjólfur færi frá og sagði að klukkan fimm þennan sama dag ætlaði stjórnin í Reykjavík að funda og þar yrði Brynjólfi gefnir tveir kostir. Þá segir hún við mig að annað hvort fari Brynjólfur í veikindaleyfi eða hann verði rekinn. Þetta sagði hún ítrekað við mig,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Jón segir deiluna undanfarna daga og vikur hafa snúist um það hvort Brynjólfur færi í veikindaleyfi eða ekki.

„Þær, þessar konur, hafa sótt það afar hart að hann færi í veikindaleyfi og segjast bera hag hans fyrir brjósti. Svo er fundað á þriðjudaginn seinasta og það kemur ekkert út úr þeim fundi.“

Barði í borðið

Að sögn hans var fundur haldinn daginn eftir.

„Þar mætum við, ég, Brynjólfur, Tinna og Málfríður. Þar heldur Málfríður langa ræðu um ágæti Brynjólfs og hvað henni þyki vænt um hann. Ég leyfi mér þá að spyrja hana hvort henni þyki rétt og viðeigandi að ræða hans starfslok í bæjarstjórn að honum fjarverandi eins og þau gerðu daginn áður.

Ég þríendurtek þá spurningu og hún svarar ekki. Það endar með því að ég lem í borðið og segist vilja fá svar en þá gengur hún á dyr, grátandi að eigin sögn,“ segir hann og bætir við að hún hafi komið grátandi á fundinn.

„Hún kom illa stemmd á fundinn og fór illa stemmd. En ég barði í borðið og heimtaði svar og það er sá illvilji sem þær tala um.“

Síðar meir var ákveðið á sunnudaginn að haldinn yrði sáttafundur á fimmtudaginn þar sem málið yrði útrætt.

„Eftir þann fund hringi ég í Tinnu, sem er ein þessara þriggja sem eru núna að klaga okkur, og segi henni hvernig þessum fundi lyktaði. Hún tekur því mjög vel og kveðst glöð yfir því að núna ætlum við að ræða málin.

Það næsta sem ég frétti eru þessi ósköp sem gerast í morgun, en ég frétti af þessari færslu á Facebook í morgun.“

Rót ágreiningsins

Spurður hvar rót ágreinings flokksins á Akureyri liggi segir hann að konurnar hafi gert mikið úr því að Brynjólfur hafi verið ýmist að hætta eða ekki hætta í bæjarstjórn.

„Hann sagði í upphafi að hann myndi ekki sitja út tímabilið. Kannski í tvö ár og skipta svo við Málfríði. Svo gerist það fyrir tveim vikum að hann fékk fyrir hjartað þannig að hann lét okkur vita að hann yrði núna að hætta.

Svo kom í ljós að þetta var ekki alvarlegt þannig að hann lét okkur vita á fundi að þetta hafi ekki verið neitt alvarlegt svo hann myndi halda áfram. En þetta sat einhvern veginn í þeim þannig að þær hafa sett það á oddinn að hann færi í veikindafrí.“

Hann segir að Inga, formaður flokksins, hafi kynt undir þessu og sagt við hann síðasta þriðjudag að nú yrði hann Brynjólfur að fara í veikindaleyfi ella yrði hann rekinn.

„Okkur er illskiljanleg þessi áhersla sem þessar konur leggja á að oddviti flokksins fari í veikindaleyfi, þær gera það að höfuðatriði.“

Brynjólfur sendi bréf á flokksmenn

Aðspurður segist hann ekkert vita um meint kynferðislegt áreiti sem fram kemur í yfirlýsingu þeirra Tinnu, Málfríðar og Hannesínu.

„Ég ímynda mér að þetta ofbeldi, eða hvernig þær nú orða það, sé þegar ég barði í borðið, en þetta kynferðislega ofbeldi er mér hulin ráðgáta.

Við munum biðja um lögreglurannsókn á þessu, við viljum fá að vita um hvað ræðir, um hverja er verið að ræða og um hvaða verknað.“

Spurður út í meintar hótanir Brynjólfs í garð kvennanna segir hann:

„Hann sendi bréf á átta eða tíu flokksmenn þar sem hann fór nokkuð hörðum orðum um þennan samskiptamáta okkar,“ segir hann og bætir við „þetta er afskaplega leiðinlegt mál. Menn hafa ekkert náð að vinna almennilega saman, það verður bara að viðurkennast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert