Líkti ríkisstjórninni við Groundhog day

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir notaði kvikmyndina Groundhog day sem myndlíkingu fyrir …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir notaði kvikmyndina Groundhog day sem myndlíkingu fyrir ríkisstjórnina. mbl.is/Hákon

„Í fleiri en einum skilningi erum við nú minnt á bíómyndina Groundhog day,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar þegar hún hóf stefnuræðu sína fyrir Alþingi þar sem hún gagnrýndi núverandi ríkisstjórn.

„Við þekkjum öll þessa mynd um manninn sem vaknar aftur og aftur sama daginn, dag múrmeldýrsins og endurtekningarnar verða yfirþyrmandi, hver dagur öðrum líkur. Við höfum heyrt gamalkunnug stef hjá ríkisstjórninni hér í kvöld um fögru fyrirheitin og endurteknu loforðin,“ hélt Þorgerður áfram og fullkomnaði myndlíkinguna við kvikmyndina góðkunnugu með Bill Murray í aðalhlutverki.

Hún sagðist þá vera orðin þreytt á því að hlusta á stefnuræðu forsætisráðherra fimm ár í röð þar sem sömu stefin eru endurtekin ár eftir ár að mati Þorgerðar.

Slá á fingur hvors annars

Þorgerður sagði þá pólitískan ómöguleika vera við líði á milli flokkanna þriggja í ríkisstjórn sem kæmi í veg fyrir alla framþróun.

„Hver og einn þeirra hefur neitunarvald yfir stefnumálum hinna. Síðast í gær voru Vinstri grænir að slá á fingur Sjálfstæðisflokksins og útiloka með öllu einkarekstur í heilbrigðiskerfinu,“ sagði Þorgerður.

Hún bætti við að það sem einkenndi ríkisstjórnina hvað mest væri kyrrstaða. Þorgerður kallaði þá eftir breytingum og óskaði þess að ríkisstjórnin myndi verða að hreyfiafli innan samfélagsins. 

„Tækifæri til endurskipulagningar og einföldunar blasa við en kjarkinn til að forgangsraða vantar. Vandinn er skilinn eftir í fangi næstu ríkisstjórnar. Ríkisstjórn Íslands stendur ein og sér og gerir það sem hún gerir best, ekkert. Nákvæmlega ekkert,“ sagði hún í lok ræðu sinnar.

mbl.is