„Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram heita Sjálfstæðisflokkurinn“

Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi
Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi Alþingi

„Eins og glöggir hafa kannski tekið eftir hef ég ekkert minnst á að það hafi komið fram í fréttum hér að Píratar hafi verið óánægðir með fjárlagafrumvarpið. Það mátti svo sem ganga út frá því. Það hefði enginn fengið stig fyrir það í spurningakeppni,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi.

Bjarni fór víða í ræðu sinni og ræddi til dæmis efnahagsstöðu Íslands í samanburði við önnur ríki í Evrópu. Þar að auki tók hann fyrir Samfylkinguna og Pírata ásamt því að fara yfir muninn á Sjálfstæðisflokknum miðað við aðra flokka þingsins. 

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að breyta nafni sínu

Eftir að Bjarni hafði svarað gagnrýni Pírata á fjárlagafrumvarpið tók hann fyrir Samfylkinguna.

„Af Samfylkingunni er það helst að frétta núna að mér heyrist að þau stefni að því að leggja varanlega niður helstu baráttumál síðustu tíu ára. Íhuga að skipta um nafn,“ sagði Bjarni um Samfylkinguna.

Hann bætti þó við að stefna flokksins um skatta væri þó greinilega óbreytt. Að mati Bjarna er það almennt stefna Samfylkingarinnar í skattamálum að halda þeim háum. Hann tók þá fyrir allan vafa um það að Sjálfstæðisflokkurinn myndi skipta um nafn.

Munur á fréttum hér og erlendis

„Það eru skörp skil á milli þess sem er í fréttum hér heima fyrir og þess sem sagt er frá að sé að gerast í okkar heimshluta að öðru leyti, sagði Bjarni og hóf ræðu sína með því að bera saman ástandið hérlendis miðað við í nágrannaríkjum okkar. 

„Verðbólga í Hollandi er tólf prósent, í Eistlandi nálgast hún 25 prósent og talið er að hún sé komin yfir 80 prósent í Tyrklandi. Um þetta fjalla fréttirnar út í heimi en hvað er í fréttunum hérna heima á sama tíma? Ísland var uppselt í sumar, atvinnuleysi er nú minna en fyrir heimsfaraldur, fiskverð eru há, orkufyrirtækin á Íslandi skila verulega góðri afkomu. Hagvöxtur var tíu prósent í ár og í fyrra,“ segir Bjarni og bætir við að afkoma ríkissjóðs hafi batnað um 100 milljarða á milli ára.

Bjarni viðurkennir þó í ræðu sinni að þrátt fyrir hagvöxt hafi lífskjör víða versnað. „Þau munu halda áfram að versna ef ekki tekst að ná stjórn á ástandinu. Nú þegar verðbólgan hefur aftur skotið upp kollinum og við erum að vinna að því að ná henni niður þá skiptir máli að opinberu fjármálin styðji sérstaklega þá sem standa veikast fyrir, eru með minnst á milli handanna.“

Frjór jarðvegur fyrir fólk til að blómstra

Í lok ræðu sinnar tók Bjarni fyrir ólík stefnumál flokkanna á Alþingi.

„Það er einmitt hérna sem það birtist með svo skýrum hætti munurinn á ólíkri hugmyndafræði hér á þinginu. Við viljum tala fyrir stöðugleika og frjóum jarðvegi fyrir fólk til þess að blómstra á eigin forsendum og svo eru hinir sem tala fyrir ríkisvæðingu allra vandamála og allra lausna.“

mbl.is