VR stefnir Eflingu vegna uppsagnar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

VR hefur stefnt Eflingu vegna uppsagnar trúnaðarmanns félagsins, Gabríels Benjamins og verður málið tekið fyrir í Félagsdómi þann 11. október næstkomandi.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði upp öllum starfsmönnum félagsins í apríl síðastliðnum í kjölfar átaka innan þess.

„Stærra en um einhverjar persónur“

„Þessi hópuppsögn hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum. Með þessu máli er verið að kanna hvort þær hafi staðist lög. Þetta mál er stærra en um einhverjar persónur, þetta snýst um að kanna hvort svona hegðun, sem við sjáum hjá stéttarfélagi, standist lög,“ segir Gabríel.

Efling gæti átt von á sekt vegna uppsagnarinnar en málið er einnig höfðað til viðurkenningar.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem einnig gegnir varaformennsku í ASÍ, gat ekki tjáð sig um málið þegar mbl.is leitaði eftir því. Alþýðusamband Íslands verst fyrir hönd Eflingar þar sem félagið er aðili að sambandinu.

Efling gæti þurft að greiða skaðabætur eða sekt

Trúnaðarmenn njóta verndar í starfi samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Samkvæmt þeim er atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig.

Verði trúnaðarmaður fyrir því að vera rekinn úr starfi eða sagt upp starfi og brottreksturinn eða uppsögnin reynist síðan ólögmæt á hann rétt á greiðslum bóta, ásamt því að hægt er að krefjast þess að atvinnurekandi sé dæmdur til greiðslu sektar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert