Bjuggust ekki við sprengju við skólana

Vallaskóli á Selfossi.
Vallaskóli á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Árborg, segir ýmsar viðbragðsáætlanir til staðar í skólum en aftur á móti hafi almennt ekki verið reiknað með sprengjum við menntastofnanirnar.

Allt hafi þó farið á besta veg þegar reyndi á slíkt mál í morgun, þegar sérsveitin var kölluð út vegna heimatilbúinnar sprengju, sem hafði ekki sprungið, á gatnamótum við Tryggvagötu og Engjaveg á Selfossi. Er það í grennd við bæði Fjölbrautaskóla Suðurlands og Vallaskóla.

Frímínútur innandyra

Lögregla hafi verið í góðum samskiptum við skólastjórnendur og börnum haldið inni á meðan aðgerðir sérsveitarinnar stóðu yfir. 

Páll Sveinsson, skólastjóri Vallaskóla, segir að nemendur hafi haldið ró sinni og að skólastarf hafi haldið áfram óraskað fyrir utan að frímínútur fóru fram innandyra. Þá hafi foreldrar verið upplýstir um stöðuna með tölvupósti.

Margar tilkynningar borist 

Þetta mun vera í annað skipti í vikunni sem sérsveitin er kölluð út á Selfoss vegna heimatilbúinnar sprengju, en í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Garðar Már Garðarsson aðalvarðstjóri að ótal tilkynningar hefðu borist lögreglu um slíkar sprengjur frá því á þriðjudaginn.

Talið er að unglingar á framhaldsskólaaldri séu að verki og mögulega einhverjir á grunnskólaaldri. 

Að sögn Þorsteins gerir hann ráð fyrir að kennarar muni ræða við nemendur í skólum á morgun um þessi mál. Þá veit hann að stjórnendur hafi einnig sent póst til foreldra þar sem þeir eru beðnir um að tala við börnin sín og vara við þeim hættum sem fylgja þessum heimatilbúnu sprengjum.

Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Árborg.
Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Árborg. mbl.is/Hólmfríður María

Skerpa á verkferlum

Þá verður einnig haldinn samstarfsfundur á morgun með skólastjórnendum þar sem farið verður yfir þetta mál og mögulega viðbragðsáætlun. 

„Við erum náttúrulega alltaf að reyna að uppfæra allar viðbragðsáætlanir. Við höfum hins vegar ekki verið að reikna með sprengju við skólana, þannig að þetta er nýtt og vonandi ekki komið til með að vera. Við förum yfir allt þetta og munum skerpa á öllum verkferlum í kringum svona mál,“ segir Þorsteinn og bætir við:

„Auðvitað getum við aldrei komið í veg fyrir allt en við reynum að vinna mjög fyrirbyggjandi í þessu.“

Nálægt þeim hluta þar sem yngstu börnin leika sér

Páll segir að sprengjan hafi verið á gatnamótum nálægt vesturhluta skólalóðarinnar, eða þeim hluta sem börn á yngsta stigi skólans leikur sér mikið á. 

„Við förum strax í kjölfarið að ræða við kennara, starfsmenn og nemendur í þeim álmum sem eru næst þessu og báðum alla um að halda sig inni í frímínútum og við sögðum þeim hvers eðlis væri. Það héldu allir bara ró sinni og skólastarfið hélt bara áfram,“ segir Páll, spurður um viðbrögð skólans við fregnum af mögulegri sprengju í nágrenninu. 

Þá segir hann að góð samskipti hefðu verið við lögregluna í gegnum ferlið sem lauk störfum um hádegið.

„Ég er að fara að senda núna upplýsingapóst bæði á starfsmenn um atburðarásina í morgun og hvað við ætlum að gera í kjölfarið. Við ætlum að setja núna fram aðgerðir í fjórum liðum, aðeins til að bregðast við þessu. Meðal annars það að við ætlum að fínkemba skólalóðina næstu dagana til þess að fullvissa okkur um að öryggi nemenda sé ekki stefnt í hættu. Við ætlum að fá fræðslu – við ætlum að byrja morgundaginn á fræðslu í alla bekki í öllum árgögnum þar sem við biðjum nemendur um að halda sig frá öllum svona hlutum ef að fleiri hlutir eru að fara að finnast.

Við sendum póst á alla foreldra og forráðamenn og biðjum þá um að ræða við sín börn og brýna annars vegar það fyrr þeim að vera ekki að framleiða svona hættulega hluti og hins vegar ef þau koma að svona torkennilegum hlutum að láta þá eiga sig og tilkynna. Þá erum við búin að óska eftir miklu samstarfi við lögregluyfirvöld á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert