Heyrði í sprengingu við skólann fyrir 2 dögum

Viðbúnaður vegna sprengju á Selfossi fyrr í dag.
Viðbúnaður vegna sprengju á Selfossi fyrr í dag. mbl.is/Sigmundur

Ingvar Garðarsson, íbúi á Selfossi sem á heima við gatnamótin þar sem heimatilbúin sprengja fannst fyrr í dag, segir ástandið á Selfossi hræðilegt og var óþægilegt að koma heim fyrr í dag og sjá sérsveitina að störfum við húsið sitt.

Ingvar var á leiðinni heim frá Reykjavík þegar hann kom að vettvangnum fyrir hádegi í dag og mátti þá ekki fara inn heima hjá sér enda búið að girða af svæði í 100 metra radíus frá sprengjunni.

Undanfarna daga hefur lögreglunni á Suðurlandi borist tilkynningar um sprengingar á Selfossi. Er um að ræða heimabúnar sprengjur þar sem notast er við ætandi efni ásamt öðrum efnum við gerð búnaðarins.

Heyrði í annarri sprengju fyrir tveimur dögum

Sérsveitin var kölluð út fyrir hádegi í dag vegna sprengju sem fannst á gatnamótum við Engjaveg og Tryggvagötu. Gatnamótin eru staðsett í íbúðahverfi og í grennd við tvo skóla, Vallaskóla og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hluti af skólalóð grunnskólans var girt af og voru nemendur beðnir um að halda sig inni.

Að sögn Ingvars var hann að labba heim fyrir tveimur dögum hjá Vallaskóla þegar hann heyrði fyrst í sprengju. 

„Það er rosalegur hávaði sem kemur frá þeim.“

Aðspurður kveðst Ingvar ekki skelkaður eða hræddur vegna ástandsins en óþægilegt sé þó að vita af ungu fólki eða börnum sem gætu slasað sig við að útbúa sprengjurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert