Innantómur loforðaflaumur

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. skjáskot

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, kallaði stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra innantóman orðaflaum í ræðu sinni um hana í kvöld. 

„Ég kalla hann ekki innantóman af neinni léttúð – þvert á móti hef ég raunverulegar áhyggjur af neikvæðu afleiðingunum sem innistæðulaus loforð hafa á lýðræðið og á traust fólks gagnvart Alþingi,“ sagði hún. 

Nefndi hún sérstaklega að stefna og yfirlýsingar hafi ekki skilað sér í aðgerðum í loftslagsmálum. 

„Forsætisráðherra vísar líka í neyðarástand í ræðu sinni. Það er samt ekki nema örstutt síðan að ráðherra afsakaði svikin loforð við Björk Guðmundsdóttur og Gretu Thunberg með því að halda því fram að hún hafi valið að ná árangri frekar en að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Ráðherra sagði að ekki væri þörf á frekari orðum, heldur aðgerðum.

En það er einmitt það eina sem við fáum. Fullt af orðum, fáar aðgerðir og engan árangur!

Ef það er neyðarástand þá þarf að lýsa því yfir – og það er neyðarástand. Við verðum að horfast í augu við raunveruleikann til að geta brugðist við honum af alúð og hugrekki. Og í því felst einmitt risastór aðgerð,“ sagði hún. 

Ætlar bara samt að selja bankann

Þá vék Halldóra einnig að sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka í vor. 

„Eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar á nýju kjörtímabili var að selja hlut af Íslandsbanka til útvalinna í lokuðu útboði. Þjóðinni var skiljanlega misboðið þegar kom í ljós hverjir keyptu og hversu mikið milliaðilar græddu á sölunni – enda telja rúmlega 88% þjóðarinnar að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað. Forsætisráðherra ásamt innviða- og fjármálaráðherra gaf út tilkynningu í kjölfarið um að ekki yrði ráðist í frekari sölu að sinni og ítrekuðu mikilvægi þess að traust og gagnsæi ríki um sölu á eignum ríkisins.

En forseti, fjármálaráðherra ætlar bara samt að klára að selja bankann. Jafnvel þótt skýrsla Ríkisendurskoðanda um framkvæmd sölunnar liggi ekki fyrir. Jafnvel þótt ekkert uppgjör hafi enn átt sér stað um það að fjármálaráðherra hafi selt föður sínum ríkiseign á útsölu – í útboði sem almenningur fékk ekki að taka þátt í.“

mbl.is